Eikurnar í Hellisskógi

Á síðustu árum hefur nokkrum tugum af sumareikum (Quercus robu) verið plantað í Hellisskógi. Eikurnar sem reyndar hafa verið koma frá Þýskalandi, Danmörku og Skotlandi. Oftast hefur þeim verið plantað ársgömlum en síðustu tvö ár hafur 2-3 ára eikum verið plantað og hefur það reynst vel. Eikur þurfa gott sjól fyrstu árin en virðast þola þó nokkur harðindi eftir að rótin er búin að koma sér vel fyrir.


Skemmst er frá því að segja að flestar eikurnar lifa ágætlega en vaxa mjög hægt og einstaka hefur kalið á haustin.
Greinilega er mjög mikill einstaklingsmunur á milli trjáa af sama svæði eða tré, og mjög mismunandi hvernig þær standa sig. Eikin verður langlíf og hefur því nægan tíma til að vaxa.


Nú eru margar sænskar eikur í uppvexti og verður plantað í Hellisskóg á næstu árum.

Kurlað í Hellisskógi

Starfsmenn frá Áhaldahúsi Árborgar mættu með kurlara í trjásafnið við aðalbílastæðið í Hellisskógi þann 11. september.
Þar tóku þeir til hauga af greinum og kurluðu.
Atafnasöm ungmenni hafa á hverju ári safnað upp haugum af greinum og búið sér til skýli í trjásafninu. Þrjú slík skýli hafa verið fjarlægð í sumar.
Verst er að þar hafa verið settar upp hlóðir og kveiktir eldar. Í vor fór eldur úr böndunum þegar unglingar voru að grilla pylsur í svona hrúgaldi. Talsverður eldur varð af og tré skemmdust.
Þess vegna er nauðsynlegt að bregðast við og fjarlægja birgin þegar þau myndast.

Myndarlegt skýli í trjásafninu

Bekkir og borð

Í ágústmánuði voru þrjú borð og áfastir setbekkir settir upp í Hellisskógi. Tveir bekkir fóru á gömul bekkjastæði, annar við aðal bílastæðið og hinn á bökkum Ölfusár neðst í Hellisgili.
Þriðji bekkurinn var settur í brekkuna framan við Hellinn. Þar sá véladeild Áhaldahúss árborgar um að koma fyrir malarstæði fyrir samstæðuna.

Bekkur framan við Hellinn.


Þessir bekkir voru í gryfjunni í nýja miðbænum á Selfossi. Þar er verið að endurnýja útihúsgögn. Miðæjarfélagið gaf Skógræktarfélaginu bekkina og Brúarvinnuflokkur Ingva Rafns sá um að flyja þá í skóginn og koma fyrir á nýjum stöðum.

Nýji og gamli bekkurinn við aðal bílastæðið.


Skógræktarfélag Selfoss þakkar Miðbæjarfélaginu kærlega fyrir gjafirnar og Brúarvinnuflokknum fyrir vinnuna við að koma bekkjunum fyrir.
Vonandi fá bekkirnir að vera í friði í Hellisskógi og munu örugglega nýtast vel þeim fjölmörgu sem heimsækja skóginn.

Bekkurinn á bökkum Ölfusár. Ingvi Rafn að herða upp á boltum.

Skilti og trjámerkingar

Síðdegis fimmtudaginn 29. ágúst var unnið að uppsetningu staura fyrir trjá merkingar í Hellisskógi. Guðmundur B Sigurðsson gröfumaður gróf fyrir staurunum og þræddi þrönga skógarstíga af sinni alkunnu snilld. Nokkrir félagar úr Skógræktarfélaginu sáu síðan um frágangsvinnu.
Einnig var grafan notuð til að víxla skiltum við aðal bílastæðið. Til stendur að endurnýja aðal skiltið þar sem gamla myndin er að mestu horfin.

Vegir lagfærðir

Síðustu daga hefur verið unnið að vegbótum í Hellisskógi. Véladeild Árborgar sér um framkvæmdir.
Vegir í Hellisskógi eru í umsjón Áborgar.
Mikil þörf var á úrbótum. Sumstaðar hefur runnið úr vegum í rigningu og leysingum en einnig vegna stíflaðra ræsa.
Hreinsað var frá ræsum og settur mulningur í vegina.

Könglaár í Hellisskógi

Góðviðri í júlí, ágúst og september á síðasta ári (2023) hefur haft mjög jákvæð áhrif á blómgun trjáa á suðurlandi vorið 2024. Á miðju sumri voru barrviðir og reynitegundir hlaðnar könglum og berjum.

Trén í Hellisskógi er þar ekki undantekning, mikið af könglum og berjum. Virkilega góðar horfur fyrir fræmyndun í haust, fuglarnir hljóta að gleðjast.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af könglum á furum, sitkagreni, fjallaþin og sitjalerki í Hellisskógi í byrjun ágúst.

Sitkagreni Picea sitchensis
Fjallaþinur Abies lasiocarpa
Bergfura Pinus uncinata
Sifjalerki Larix x eurolepis
Stafafura Pinus contorta

Hreinsað úr skurði

Í bleytutíðinni undanfarið hefur reynt talsvert á fráveitukerfið í Hellisskógi. Í sumar stíflaðist eitt ræsi framan við Grímskletta og skurðurinn varð barmafullur af vatni á um 500 m kafla. Ástæðan var sambland af mikilli leirdrullu og trjágreinum. 

Þegar borað var eftir heitu vatni í Hellisskógi fyrir nokkrum árum var miklu magni af borsalla veitt út í skurðinn. Drullan er smám saman að færast neðar eftir skurðinum og stífla hann.

Anna Margrét gröfustjóri hjá Árborg kom í lok júlí og hreinsaði frá ræsinu með góðum árangri.

Lagfæringar á Hellisbrú

 Í sumar hefur verið unnið að lagfæringum á Hellisbrú í Hellisskógi. Á nokkrum stöðum hefur þetta gamla mannvirki sigið ofan í mýrina og full þörf á lagfæringum til að brautin sé vel fær í öllum veðrum. 

Brúarvinnuflokkur Ingva Rafns hefur annast verkið af miklum myndarskap. Sigtún þróunarfélag veitti myndarlegan styrk til verksins. 

Hér eru nokkrar myndir frá 5. júlí þegar verið var að koma fyrir timburbrú yfir helstu bleytusvæðin.

Skógræktarfélag Selfoss þakkar kærlega fyrir gott framtak.

Plöntun í Hellisskógi

Fimmtudaginn 27. júní (kl.20-22) var plantað í Hellisskóg í blíðskapar veðri. Sautján félagsmenn mættu.
Plantað var um 750 plöntum af birki, sitkagreni, svartelri, gráelri og ryðelri meðfram göngustíg vestan við Hellinn. Verkið gékk hratt og vel.
Að lokinni vinnu var boðið uppá kvöldhressingu og létt spjall við Hellinn.

Plöntunarkvöld í Hellisskógi

Fimmtudaginn 27. júní kl. 20 verður plantað í Hellisskógi. Mæting við Hellinn.
Plantað verður 750 plöntum af birki, sitkagreni, svartelri, gráelri og ryðelri.
Létt og skemmtileg vinna fyrir alla fjölskylduna.
Allir velkomnir.
Boðið verður uppá hressingu í Hellinum eftir vinnu.