Gróskulegt birki sumarið 2024

Margar tegundir meindýra herja á íslensku ilmbjörkina. Þetta eru fiðrildalirfur eins og tígulvefari, birkivefari, haustfeti og birkifeti. Stundum verða skaðar svo miklir af völdum þessara lirfa að trén drepast á stóru svæði. Minna tjón er af völdum birkiblaðlúsa eða birkisprotalúsa. Birkiryð getur dregið úr vaxtarþrótti. Allt hefur þetta fundist í Hellisskógi en ekki valdið teljandi skaða.
Undanfarin ár hafa nýjar tegundir bæst við og valdið miklu tjóni. Þekktastar eru birkikemba (fiðrildalirfa) og birkiþéla (blaðvespulirfa). Þessar tegundir skemma laufblöð sem veldur minni ljóstillífun trjánna og þar með minni vexti og þrifum.
Þessar tegundir hafa síðust 5-8 ár valdið miklum skaða á birkiskógum á Suðurlandi og þar með í Hellisskógi. Skógurinn hefur orðið brúnn yfir að líta. Verst var ástandið sumarið 2017.

Birkiskógurinn varð brúnleitur vegna blaðskemmda af völdum birkikembu sumarið 2017. Mynd frá 19. júní 2017.


Sumarið 2024 brá svo við að þessir skaðvaldar sáust lítið sem ekkert í Hellisskógi.
Hvað veldur er erfitt að segja um? Sumir telja orsökina kalt og rakt sumar. Ekki eru það sennilegt því miklar skemmdir vegna birkikembu voru víða annarsstaðar á Suðurlandi.
Sennilegri skýring er að sjúkdómar eða afræningjar séu byrjaðir að herja á pöddurnar. Vísbendingar eru um það. Tími og rannsóknir verður síðan að leiða í ljós hvort það sé skýringin og hvort um varanlegt ástand sé um að ræða.
Sem sagt sumarið 2024 var birki einstaklega hraustlegt og fallegt í Hellisskógi og haustlitir á birki meiri en sést hafa í áratugi.

Sumarið 2024 var birkið einstaklega blaðfallegt og skemmdir vegna meindýra sáust varla. Haustlitir stóðu óvenju lengi. Mynd frá 12. október 2024.

Góður vöxtur

Þrátt fyrir umhleypingasamt vor og svalt og vætusamt veður sumarið 2024, var vöxtur í trjám í Hellisskógi góður.
Sitkagreni nýtur oft góðs af góðu hausti árið áður. Haustið 2023 var mjög gott og því eðlilegt að vöxtur væri góður sumarið 2024.
Lengd vaxtarsprota var vel yfir meðallagi og heilbrigði trjánna gott. Lítið um storma á viðkvæmasta tíma í júlí og ágúst og því óvenju lítið um brotna toppsprota miðað við undanfarin ár.


Strax í maí var ljóst að mikil blómgun yrði hjá sitkagreni og þegar leið á sumarið kom í ljós að mörg tré voru ríkulega skreytt könglum í toppum og sum alveg niður undir jörð.
Í haust var sannkölluð veisla hjá auðnutittlingum sem nýttu sér fræ í könglum, enda ekki mikið að hafa á birkinu.


Litrík reynitré

Eftir fremur svalt og vætusamt sumar kom kuldalegt haust. Hvort kalsaveðrið hafi hjálpað til eða eitthvað annað þá voru óvenju fallegir haustlitir í mörgum reynitegundum í september og fram í október. Þetta átti jafnt við um tré á Selfossi og í Hellisskógi.
Þar sem ekki voru mikil næturfrost í september og ekki hvassir vindar þá entust litrík blöðin á trjánum óvenju lengi. Jafnframt voru mörg trén hlaðin berjum.
Margir gestir í Hellisskógi glöddust yfir litskrúðinu. Þrestirnir voru sérlega spenntir yfir berjunum, enda kláruðust þau hratt þegar tók að kólna í okróber.
Hér eru nokkrar litríkar myndir úr Hellisskógi haustið 2024.

Fjallareynir (Sorbus commixta)
Kasmírreynir (Sorbus cashmiriana)
Kínareynir ‘Bjartur’ (Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’)
Ilmreynir (Sorbus aucuparia)
Skrautreynir (Sorbus decora)

Haustplöntun

Í blíðu veðri síðdegis á sunnudegi 29. september kom hópur skógræktarfólks saman í Hellisskógi og plantaði 50 reynitrjám af ýmsum tegundum.


Þetta voru um 1 m háar pottaplöntur. Sett var hrossatað með hverri plöntu. Taðið er góður áburður ásamt því að draga úr líkum á frostlyftingu fyrsta veturinn á nýjum stað.
Plantað var á tvo staði með veginum vestan og norðan við Grímskletta og síðan í brekku við árbakkann.


Verkið gékk vel og og í lokin fengu allir smá hressingu á nýja bekknum framan við Hellinn.
Reynitré hafa vaxið vel í Hellisskógi á undanförnum árum. Bæði er um að ræða tré sem félagsmenn hafa plantað á valda staði og síðan mikill fjöldi sjálfsáinna reyniviða um allan skóg. Í haust voru einstaklega fallegir haustlitir á reynitrjám og margir hlaðnir berjum.

Haustplöntun 29. september

Sunnudaginn 29. september kl.15-17 er áætlað að planta í Hellisskóg.
Að þessu sinni verður plantað pottaplöntum af ýmsum tegundum, aðallega reyniviðum og sitkagreni. Settur verður húsdýraáburður með hverri plöntu.
Mæting við fuglaskiltin neðan við aðal bílastæðið.
Gott er að gróðursetningafólk komi með skóflur og fötur fyrir sig.
Veitingar verða í boði í Hellinum eftir plöntun.
Þetta er kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur að mæta í létt og skemmtilegt verkefni í Hellisskógi. Margar hendur vinna létt verk.
Allt verður þetta háð veðri. Nánar kynnt þegar nær dregur og útséð með veður.

Eikurnar í Hellisskógi

Á síðustu árum hefur nokkrum tugum af sumareikum (Quercus robu) verið plantað í Hellisskógi. Eikurnar sem reyndar hafa verið koma frá Þýskalandi, Danmörku og Skotlandi. Oftast hefur þeim verið plantað ársgömlum en síðustu tvö ár hafur 2-3 ára eikum verið plantað og hefur það reynst vel. Eikur þurfa gott sjól fyrstu árin en virðast þola þó nokkur harðindi eftir að rótin er búin að koma sér vel fyrir.


Skemmst er frá því að segja að flestar eikurnar lifa ágætlega en vaxa mjög hægt og einstaka hefur kalið á haustin.
Greinilega er mjög mikill einstaklingsmunur á milli trjáa af sama svæði eða tré, og mjög mismunandi hvernig þær standa sig. Eikin verður langlíf og hefur því nægan tíma til að vaxa.


Nú eru margar sænskar eikur í uppvexti og verður plantað í Hellisskóg á næstu árum.

Kurlað í Hellisskógi

Starfsmenn frá Áhaldahúsi Árborgar mættu með kurlara í trjásafnið við aðalbílastæðið í Hellisskógi þann 11. september.
Þar tóku þeir til hauga af greinum og kurluðu.
Atafnasöm ungmenni hafa á hverju ári safnað upp haugum af greinum og búið sér til skýli í trjásafninu. Þrjú slík skýli hafa verið fjarlægð í sumar.
Verst er að þar hafa verið settar upp hlóðir og kveiktir eldar. Í vor fór eldur úr böndunum þegar unglingar voru að grilla pylsur í svona hrúgaldi. Talsverður eldur varð af og tré skemmdust.
Þess vegna er nauðsynlegt að bregðast við og fjarlægja birgin þegar þau myndast.

Myndarlegt skýli í trjásafninu

Bekkir og borð

Í ágústmánuði voru þrjú borð og áfastir setbekkir settir upp í Hellisskógi. Tveir bekkir fóru á gömul bekkjastæði, annar við aðal bílastæðið og hinn á bökkum Ölfusár neðst í Hellisgili.
Þriðji bekkurinn var settur í brekkuna framan við Hellinn. Þar sá véladeild Áhaldahúss árborgar um að koma fyrir malarstæði fyrir samstæðuna.

Bekkur framan við Hellinn.


Þessir bekkir voru í gryfjunni í nýja miðbænum á Selfossi. Þar er verið að endurnýja útihúsgögn. Miðæjarfélagið gaf Skógræktarfélaginu bekkina og Brúarvinnuflokkur Ingva Rafns sá um að flyja þá í skóginn og koma fyrir á nýjum stöðum.

Nýji og gamli bekkurinn við aðal bílastæðið.


Skógræktarfélag Selfoss þakkar Miðbæjarfélaginu kærlega fyrir gjafirnar og Brúarvinnuflokknum fyrir vinnuna við að koma bekkjunum fyrir.
Vonandi fá bekkirnir að vera í friði í Hellisskógi og munu örugglega nýtast vel þeim fjölmörgu sem heimsækja skóginn.

Bekkurinn á bökkum Ölfusár. Ingvi Rafn að herða upp á boltum.

Skilti og trjámerkingar

Síðdegis fimmtudaginn 29. ágúst var unnið að uppsetningu staura fyrir trjá merkingar í Hellisskógi. Guðmundur B Sigurðsson gröfumaður gróf fyrir staurunum og þræddi þrönga skógarstíga af sinni alkunnu snilld. Nokkrir félagar úr Skógræktarfélaginu sáu síðan um frágangsvinnu.
Einnig var grafan notuð til að víxla skiltum við aðal bílastæðið. Til stendur að endurnýja aðal skiltið þar sem gamla myndin er að mestu horfin.

Vegir lagfærðir

Síðustu daga hefur verið unnið að vegbótum í Hellisskógi. Véladeild Árborgar sér um framkvæmdir.
Vegir í Hellisskógi eru í umsjón Áborgar.
Mikil þörf var á úrbótum. Sumstaðar hefur runnið úr vegum í rigningu og leysingum en einnig vegna stíflaðra ræsa.
Hreinsað var frá ræsum og settur mulningur í vegina.