Plantað í góðu veðri

Fimmtudaginn 28. október mættu tólf vaskir félagar í Skógræktarfélagi Selfoss og plöntuðu 700 rauðelri- og ryðelriplöntum í Hellisskóg. Plönturnar komu frá gróðrarstöðinni Þöll í Hafnarfirði. Að þessu sinni var plantað sunnan við Stekkjarholt á gróðurlitla mela og jaðarsvæði mýrlendis. Í framtíðinni gætu vaxið þarna upp elri lundir ef allt gengur að óskum. Gaman verður að fylgjast með framvindunni. 

Einnig var möl sett við nýjan bekk sem staðsettur er framan við Réttarklett. Bekkurinn var gjöf frá Húsasmiðjunni.

Haustplöntun í Hellisskógi

Fimmtudaginn 28. september kl. 16:30 verður plantað 700 ryðelri- og svartelriplöntum meðfram Hellisbrú framan við Stekkjarholt. Mæting við Hellinn. Létt vinna við flestra hæfi. Verkfæri verða á staðnum og boðið verður uppá veitingar í Hellinum að lokinni vinnu.

Fuglaskilti í Hellisskógi.

Í Hellisskógi og á Ölfusá við skóginn er mikið fuglalíf. Til að auðvelda gestum skógarins að þekkja fuglana hafa verið útbúin skilti með algengustu tegundunum. Skiltin sína fugla á Ölfusá, í skóginum og á opnum svæðum í Hellisskógi. 

Nú eru fyrstu þrjú fuglaskiltin tilbúin og komin á sinn stað í Hellisskógi. Alls verða skiltin sex. þrjú eru komin rétt við aðal bílastæðið og öðrum þremur verður síðar dreift um skóginn. Verkefnið er styrkt af Pokasjóði fyrir tilstuðlan Ferðafélags Árnesinga.