Hellisskógur

Gönguleiðakort af Hellisskógi

Myndasögur úr Hellisskógi

Upp úr 1980 var farið fyrir alvöru að huga að nýju skógræktarlandi í landi Selfossbæjar. Vorið 1982 var bæjarstjórninni á Selfossi ritað bréf þar sem skógræktarfélagið óskaði eftir landi innan bæjarmarka til að rækta skóg og útbúa útivistarsvæði. Þá þegar var komin umræða um að Hellisland væri hentugur staður. Í apríl 1983 var erindið tekið fyrir og formanni byggingarnefndar falið að skoða málið. Í febrúar 1984 barst skógræktarfélaginu bréf varðandi mögulegt skógræktarsvæði í Hellislandi. Drög að samningi voru lögð fyrir félagsfund 27. september 1985. Samningur við Selfossbæ var þar samþykktur. Samningur var síðan undirritaður 1. október 1985. Svæðið var strax nefnt Hellisskógur, þó ekkert tré væri á svæðinu.

Guðmundur Kristinsson ásamt Ingvari syni sínum kannar aðstæður í Hellismýri vorið 1985.

Frá árinu 1986 hefur Hellisskógur við Selfoss verið aðal vinnusvæði skógræktarfélagsins. Svæðið afmarkast af Hellisgili að austanverðu og liggur þar að landamörkum Selfoss og Laugarbakka. Að ofanverðu fylgja mörkin Biskupstungnabraut til móts við gámasvæði bæjarins og að neðanverðu afmarkast svæðið af Ölfusá, að efstu húsum í hverfinu utan ár.

Landið var þá mjög illa farið eftir langvarandi ofbeit hrossa og sauðfjár. Mýrlendið var víða gróðurlítið, útsparkað drullusvað og í holtunum voru stór rofaborð.

Plæging í Hellismýri 1986.

Haustið 1986 var fyrsti hluti svæðisins girtur af og var þá 53,8 ha að stærð. Plöntun hófst vorið 1986, en þá var plantað 2000 víðiplöntum í skjólbelti rétt innan við aðalinnganginn neðst á svæðinu. Um haustið voru 16 ha af mýrlendinu við Grímskletta plægðir og undirbúnir undir plöntun. Næstu ár á eftir unnu sjálfboðaliðar á vegum skógrætarfélagsins, vinnuhópar úr unglingavinnu, grunnskólanemendur og hópar kostaðir af atvinnuleysissjóði hörðum höndum við plöntun og umhirðu plantna og lagningu göngustíga. Einnig voru lagðir vegir um svæðið. 

Fyrsta plöntun í Hellisskóg vorið 1986.

Þessi fyrsti hluti Hellisskógar var fullplantaður árið 1994. Þá var gerður nýr samningur og svæðið stækkað um 72.2 ha. Heildarstærðin var eftir stækkun um 126 ha. 

Haustið 1995 var hluti mýrlendis á nýja svæðinu kílræstur (50 km af kílræsum) og svæðið girt og sameinað eldri hlutanum. Einnig var plantað 20.000 plöntum af birki og víði efst á svæðið meðfram Biskupstungnabraut. 

Frá árinu 1986 hefur nú verið plantað um 350.000 plöntum af 65 tegundum. Allar þessar tegundir er að finna í trjásafni sem komið var upp í Hellisskógi á árunum 1991-1997 sem einn af velgjörðarmönnum félagssins, Júlíus Steingrímsson greiddi allan kostnað við. Frá upphafi framkvæmda í Hellisskógi hafa sjálfboðaliðar á vegum skógræktarfélagsins árlega unnið 2-8 kvöld við plöntun og önnur störf. Nokkur félagasamtök og klúbbar hafa ennig komið og plantað. Hópar frá grunnskólum og unglingavinnu á Selfossi hafa plantað í Hellisskóg flest ár. 

Skjólbelti við Biskupstungnabraut sumarið 1996.

Auk þess að planta hafa verið lagðir akvegir og göngustígar um svæðið, settir bekkir og borð og Hellirinn grafinn út og útbúinn sem áningarstaður þar sem fólk getur sest niður og fundið sér skjól fyrir veðri og vindum. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga rétt eins og stefnt var að í upphafi.
Nú er búið að setja upp gönguleiðakort á áberandi stöðum og merkja þrjár góðar gönguleiðir. Alls eru gönguleiðir innan svæðisins um 8 km að lengd

Framkvæmdir í Hellisskógi hafa verið fjármagnaðar með félagsgjöldum, gjafafé frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum auk árlegra styrkveitinga frá Sveitarfélaginu Árborg. 

Árið 2003 var unnið deiliskipulag að svæðinu og í tengslum við það fór fram viðamikil skráning á fornminjum og minjastöðum í Hellisskógi. Á komandi árum er stefnt að áframhaldandi plöntun samkvæmt gildandi deiliskipulagi og markvissri aukningu í stígagerð um svæðið, bæði til að auðvelda gróðursetningu og viðhald svæðisins en einnig til að auka útivistarmöguleika svæðisins.
Frá upphafi var ákveðið að reyna að vernda fjögur stór mýrlendi innan svæðisins í þeim tilgangi að vernda votlendisvarpfugla. Einnig hefur verið notað áveitukerfi til mynda tjarnir og votlendi á nýjum svæðum. Sumt hefur tekist vel en ljóst er að þessi votlendissvæði eru smásaman að þróast yfir í skóglendi, því birki og víðir sáir sér mikið út í friðuðu mýrarnar.

Hellisskógur 2022. Vinsælt útivistarsvæði með 8 km af gönguleiðum.

Vöxtur og viðgangur trjágróðurs í Hellisskógi hefur verið framar vonum og á stóru svæði er nú að vaxa upp skógur sem er farinn að standa undir nafni. 
Tugir gesta sækja svæðið heim daglega allan ársins hring og njóta þess skjóls og hugarró sem skógurinn veitir.