Um félagið

Skógræktarfélag Selfoss var stofnað á fundi í Tryggvaskála 16. maí 1952 og varð strax deild innan Skógræktarfélags Árnesinga. Tilgangur félagsins var skv. 2. grein félagslaga “að efla trjárækt innan bæjarins og planta skógi á
ræktunarsvæðum Selfossbæjar og Skógræktarfélags Árnesinga”. Skógræktarfélag Selfoss hefur unnið óslitið að þessum markmiðum undarfarin 70 ár og plantað í reiti á Selfossi og á Snæfoksstöðum, skógræktarjarðar í Grímsnesi í eigu Skógræktarfélags Árnesinga.
Þá hefur félagið lagt áherslu á að veita félagsmönnum fræðslu um skóg- og trjárækt með fyrirlestrum, myndasýningum, leiðbeiningum og ferðum innan héraðs og utan.
Á þessum sjötíu árum hafa félagsmenn plantað í þrjú svæði. Fyrstu 18 árin var gróðursett í “Rauðholtsgirðinguna” á Selfossi (á núverandi íþróttavallarsvæði og Gesthúsalóð). Ræktunin þar gekk á köflum brösuglega og tíðir gróðureldar og ágangur búfénaðar varð til þess að félagið hætti að gróðursetja í það svæði. Eftir standa þó nokkur myndarleg grenitré og birkiræklur sem sluppu við eldana en hluti svæðisins hefur nú verið tekin undir aðra starfsemi.
Á árunum 1970-1984 var gróðursett í reit Skógræktarfélags Selfoss á Snæfoksstöðum í Grímsnesi í girðingu sem Skógræktarfélags Árnesinga á og rekur. Þar var einkum plantað stafafuru sem hefur vaxið vel og myndar nú fallegan skóg.
Frá árinu 1986 hefur Skógræktarfélag Selfoss eingöngu plantað í Hellisskóg við Selfoss.

Skógræktarfélag Selfoss er áhugamannafélag um trjárækt og skógrækt. Starfsemin byggist fyrst og fremst á virkni og starfi félagsmanna. Undanfarið hefur starf hins almenna félagsmanns einkum verið vinna við plöntun eða umhirðu í Hellisskógi tvö vinnukvöld á sumri.

Fyrstu stjórn félagsins skipuðu: Þórmundur Guðmundsson, formaður, Gísli Bjarnason og Bergur Þórmundsson. 

Núverandi stjórn skipa: Örn Óskarsson, formaður, Snorri Sigurfinnsson, Hermann Ólafsson, Björgvin Örn Eggertsson og Hlíf Böðvarsdóttir.

Félagafjöldinn hefur gegnum tíðina verið nokkuð breytilegur. Undanfarin 30 ár hefur félagafjöldinn verið frá 110 – 160.

Formenn Skógræktarfélags Selfoss 1952-2023

  • 1952-1975 Þórmundur Guðmundsson 
  • 1975-1984 Óskar Þór Sigurðsson
  • 1984-1987 Örn Óskarsson 
  • 1987-1988 Guðmundur Vernharðsson
  • 1988-1991 Örn Óskarsson
  • 1991-1994 Valdimar Bragason 
  • 1994-1998 Sigmundur Stefánsson 
  • 1998-1999 Oddný Guðmundsdóttir
  • 1999-2000 Björgvin Örn Eggertsson 
  • 2000-2003 Ingileif Auðunsdóttir 
  • 2003-2006 Hermann Ólafsson 
  • 2006-2018 Björgvin Örn Eggertsson 
  • 2018- Örn Óskarsson