Rauðholt

Rauðholtsgirðingin sumarið 2022. Núna er þar myndarlegt útivistarsvæði í hjarta bæjarins.

Fyrstu 18 starfsár Skógræktarfélags Selfoss var gróðursett í “Rauðholtsgirðinguna” á Selfossi (á núverandi íþróttavallarsvæði og Gesthúsalóð). Árið 1951 kom upp sú hugmynd að haldið yrði upp á 15 ára afmæli Ungmannafélags Selfoss með því að halda afmælismót og planta trjám til skjóls og prýði við íþróttavöllinn. á Selfossi. Vorið 1951 var plantað um 2000 plöntum á svæðið. Börn úr barnaskólanum og ýmis félagasamtök gróðursettu líka í svæðið. Þegar skógræktarfélag Selfoss var stofnað 16. maí 1952 á tók það við Rauðholtsgirðingunni og félagsmenn plöntuðu þar næstu árin. Einkum var plantað birki, víði , skógarfuru og sitkagreni í girðinguna. Ræktunin þar gekk á köflum brösuglega, jarðvegurinn var mjög rýr og tíðir gróðureldar og ágangur búfénaðar varð til þess að félagið hætti að gróðursetja þar árið 1970. Eftir standa þó nokkur myndarleg grenitré og birkiræklur sem sluppu við eldana en hluti svæðisins hefur nú verið tekin undir aðra starfsemi. Á árunum 1980 – 1995 plöntuðu unglingar í vinnuskóla Selfoss talsverðu á stafafuru og síðar alaskaösp. Þau tré hafa vaxið vel og setja nú mestan svip á svæðið.

Myndarleg sitkagrenitré sem sluppu við gróðureldana á sjöunda áratug síðustu aldar.