Vor í Árborg 2024

Þann 27. apríl var fræðsluganga um Hellisskóg. Gangan var liður í hátíðarhöldum í “vor í Árborg. Hlíf Böðvarsdóttir og Örn Óskarsson úr stjórn  Skógræktarfélags Selfoss leiddu gönguna. Boðið var upp á stimpil í vegabréf og einhverjir þáðu það.

Aðalfundur 2024

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss er miðvikudaginn 17. apríl 2024 kl 20:00 í skemmunni á Snæfoksstöðum.

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Kynning á starfsemi Skógræktarfélags Árnesinga á Snæfoksstöðum.
    Allir eru velkomnir

Alþjóðlegur dagur skóga 2024

Í dag 21. mars er alþjóðlegur dagur skóga sem FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna heldur hátíðlegann á hverju ári.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að vera í skógi hafi jákvæð áhrif á heilsuna.  Kyrrð, skjól og fuglasöngur eflir anda fólks.
Við þurfum heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk.
Skógræktarfélag Selfoss hefur í rúm 70 ár unnið ötullega að því markmiði að útbúa ákjósanleg útivistarsvæði með skógrækt. Því fjölbreytilegri sem skógar eru því jákvæðari verða áhrifin á þá sem heimsækja skóginn. Í þeim anda hefur Skógræktarfélag Selfoss byggt upp skóga og skógarlundi á Selfossi, á Snæfoksstöðum í Grímsnesi og nú síðast Hellisskóg fyrir ofan Selfoss.
Hellisskógur er 125 ha að stærð og þar eru um 8 km af gömguleiðum. Þrátt fyrir ungan aldur er Hellisskógur farinn að gefa gott skjól í öllum veðrum og því nýtist skógurinn göngufólki allan ársins hring. Þar má alltaf finna stíga i góðu skjóli.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá skjólgóðum gönguleiðum í Hellisskógi. Myndirnar voru teknar 19. mars í suðvestan roki og eljagangi en á gönguleiðunum var logn.

Plantað í góðu veðri

Fimmtudaginn 28. október mættu tólf vaskir félagar í Skógræktarfélagi Selfoss og plöntuðu 700 rauðelri- og ryðelriplöntum í Hellisskóg. Plönturnar komu frá gróðrarstöðinni Þöll í Hafnarfirði. Að þessu sinni var plantað sunnan við Stekkjarholt á gróðurlitla mela og jaðarsvæði mýrlendis. Í framtíðinni gætu vaxið þarna upp elri lundir ef allt gengur að óskum. Gaman verður að fylgjast með framvindunni. 

Einnig var möl sett við nýjan bekk sem staðsettur er framan við Réttarklett. Bekkurinn var gjöf frá Húsasmiðjunni.

Haustplöntun í Hellisskógi

Fimmtudaginn 28. september kl. 16:30 verður plantað 700 ryðelri- og svartelriplöntum meðfram Hellisbrú framan við Stekkjarholt. Mæting við Hellinn. Létt vinna við flestra hæfi. Verkfæri verða á staðnum og boðið verður uppá veitingar í Hellinum að lokinni vinnu.

Fuglaskilti í Hellisskógi.

Í Hellisskógi og á Ölfusá við skóginn er mikið fuglalíf. Til að auðvelda gestum skógarins að þekkja fuglana hafa verið útbúin skilti með algengustu tegundunum. Skiltin sína fugla á Ölfusá, í skóginum og á opnum svæðum í Hellisskógi. 

Nú eru fyrstu þrjú fuglaskiltin tilbúin og komin á sinn stað í Hellisskógi. Alls verða skiltin sex. þrjú eru komin rétt við aðal bílastæðið og öðrum þremur verður síðar dreift um skóginn. Verkefnið er styrkt af Pokasjóði fyrir tilstuðlan Ferðafélags Árnesinga.

Einn bekkur enn

Í sumar hefur Húsasmiðjan gefið Skógræktarfélagi Selfoss þrjá bekki til að nota í Hellisskógi. Þriðja bekknum var komið á sinn stað í gær. Hlaupahópurinn Frískir Flóamenn sá um að bera bekkinn 350 m og koma honum fyrir við Réttarklett. Skógræktarfélagið þakkar Húsasmiðjunni kærlega fyrir gjafirnar í sumar og göngu hópi Ingva Rafns fyrir að koma bekkjum 1 og 2 fyrir og Frískum fyrir bekk þrjú
Hér eru myndir af flutningi og uppsetningu.

Plöntunarkvöld í Hellisskógi

Mánudaginn 12. júní kl 20:00 verður vinnukvöld í Hellisskógi. Þá verður plantað bakkaplöntum af nokkrum tegundum með verðandi gönguleið austan við Hellinn. Verkfæri verða á staðnum. Mæting við Hellinn. Léttar veitingar verða í Hellinum að lokinni vinnu. 

Vinnudagar í Hellisskógi í maí

Miðvikudagur 10. maí kl. 20:00.
Mæting á aðal bílastæði.
Möl ekið í stíga og að nýju bekkjunum. Mæta með skóflur og gott ef einhverjir gætu komið með hjólbörur. Ekki mikið verk.
Ef tími vinnst til verða stungnar upp nokkrar hnausaplöntur.

Sunnudagur 14. maí kl. 16:00.
Mæting við Hellinn.
Stungið niður aspargræðlingum.
Létt og einföld vinna. Upplagt verkefni fyrir fjölskyldur með börn.

Boðið verður uppá veitingar í Hellinum eftir vinnu.

Í júní eða október verður plöntun í Hellisskógi. Nánari tímasetning verður auglýst síðar. Fer eftir því hvernig gengur að fá skógarplöntur í gróðrarstöðvum.

Alaskaösp vex upp af græðlingi sumarið 2022.