Viðgerðir á gönguleiðum

Í hlýjindakaflanum í nóvember notuðu skógræktarmenn tækifærið og löguðu skakkar göngubrýr og byggðu eina nýja. Þessar brýr voru komnar nokkuð til ára sinna og að auki höfðu lækjarfarvegir breikkað með árunum og grafið undan brúnum.
Það var mikils virði að fara ekki inn í veturinn með hallandi og hættulegar brýr á vinsælum göngu og skokkleiðum.

Formaður fékk þá Sigmund Stefánsson, Jens Sigurðsson og Gísla Skúlason með sér í verkið. Verkið gékk fljótt og vel. Hér má sjá nokkrar myndir frá framkvæmdunum.

Gönguskíðabraut í Hellisskógi

Í sumar hafði áhugamaður um gönguskíðabrun samband við skógræktarmenn og kannaði hvort vilji væri fyrir því hjá Skógræktarfélagi Selfoss að leggja gönguskíðabrautir um Hellisskóg. Félagið tók vel í þessa málaleitan.


Þann 20. október mættu nokkrir skógræktarmenn í Hellisskóg og mældu út 1,2 km leið um norðvesturhorn skógarins uppundir Biskupstungnabraut.
Á nokkrum stöðum voru tré felld til að koma brautinni fyrir.


Þriðjudaginn 5. nóvember kom Guðjón Helgi Ólafsson með traktor og tætara og tætti upp og jafnaði brautina. Skíðabrautin byrjar og endar við bílastæðið við Biskupstungnabraut.


Tætingin verður látin síga svolítið áður en hún verður þjöppuð með vélsleða. Leiðin verður stikuð og bekkur og skilti sett við bílastæðið.
Svo er bara að bíða eftir að snjói svo hægt verði að setja spor og vígja brautina.


Á sumrin verður þetta upplögð gönguleið um efri hluta Hellisskógar.
Ef vel tekst til og áhugi verður á gönguskíðaiðkun í skógarskjóli í Hellisskógi, þá eru nú þegar áform um fleiri leiðir um skóginn.