Lerki í Hellisskógi

Lerkitré í trjásafninu. Evrópulerki (vinstra megin), mýrarlerki (í miðjunni) og rússalerki (hægra megin).

Í Hellisskógi vaxa nú sex tegundir af lerki. Mest hefur verið plantað af Rússalerki Larix sibirica var. sukaczewii og það vex sumstaðar nokkuð vel. Mýrarlerki Larix laricina vex illa í mýrarjarðvegi þar sem mest var plantað af því, en í trjásafninu er betri vöxtur. Nokkur Evrópulerki Larix decidua vaxa í þyrpingu í trjásafninu og standa sig vel.

Dáríulerki (Larix gmelinii)

Í Hellisskógi vaxa nokkur Dáríulerki (Larix gmelinii) ættuð frá bænum Esso inni á miðjum Kamtsjatkaskaga og hefur eitt þeirra náð að vaxa hægt en örugglega. Síðan eru tveir lerkiblendingar Sifjalerki (evrópulerki og japanslerki) og Hrymur (evrópulerki og rússalerki). Hrymur vex mjög vel og lofar góðu. Talsverðu hefur verið plantað af honum en trén eru flest ung.

Hrymur myndar falleg tré við sunnlenskar veðuraðstæður
Sifjalerki við Grímskletta í fallegum haustlitum.