Hellisskógur 40 ára

Um þessar mundir eru liðin 40 ár frá því Skógræktarfélag Selfoss hóf uppbygging útivistarsvæðis í Hellisskógi. Félagið er þó mun eldra, en það var stofnað 16. maí 1952.

Hellisskógur 40 ára.


Félagið tók í upphafi við skógræktargirðingu í Rauðholti við íþróttavöllinn á Selfossi, en áður hafði það svæði verið í umsjón Ungmennafélags Selfoss. Upp úr 1970 var ljóst að það svæði hentaði ekki félaginu enda hluti svæðisins kominn undir aðra starfsemi.
Skógræktarfélagið flutti þá starfsemi sína að Snæfoksstöðum í Grímsnesi og plantaði þar trjágróðri næstu 15 árin.

Fyrsta pöntun vorið 1986
Sama svæði Í september 2025


 
Upp úr 1980 jókst áhugi félagsmanna að byggja upp skógræktar- og útivistarsvæði í nálægð við Selfossbæ og var erindi þess efnis sent bæjarstjórn vorið 1982, en Hellisland var þá þegar komið í umræðuna sem hentugur staður. Það var svo 1. október 1985 að samningur við Selfossbæ um uppbyggingu svæðisins var undirritaður og svæðið strax
nefnt „Hellisskógur“ þó engin tré væru á svæðinu. Um var að ræða tæplega helming þess lands sem síðar varð. Frá árinu 1986 hefur Hellisskógur við Selfoss verið aðal vinnusvæði Skógræktarfélags Selfoss.

Haust 1986 – Vegurinn inn í Hellisskóg
Sama sjónarhorn haustið 2025


 
Starfið í Hellisskógi
Landið var í upphafi illa farið eftir langvarandi ofbeit hrossa og sauðfjár. Mýrlendið var víða gróðurlítið og í holtunum voru stór rofaborð. Svæðið var fyrst hreinsað af drasli, fjárhúsbröggum og girðingaleifum og hafist handa við uppgræðslu á rofsvæðum. Þar var meðal annars notaður garðaúrgangur og gras frá Selfossbæ sem unglingavinnan sá um
að koma fyrir.

Hellisskógur haustið 1985
Sami staður í september 2025


Haustið 1986 var fyrsti hluti svæðisins girtur af og var þá 53,8 ha að stærð. Plöntun hófst vorið 1986, en þá var plantað 2000 víðiplöntum í skjólbelti rétt innan við aðalinnganginn neðst á svæðinu. Um haustið voru 16 ha. af mýrlendinu við Grímskletta plægðir og undirbúnir undir plöntun. Næstu ár á eftir unnu sjálfboðaliðar á vegum
skógræktarfélagsins, vinnuhópar úr unglingavinnu, grunnskólanemendur og hópar kostaðir af atvinnuleysissjóði hörðum höndum við plöntun og umhirðu plantna og ásamt lagningu göngustíga. Einnig voru lagðir vegir um svæðið. 

Hellisskógur 1985 – útsýni til suðurs af Grímsklettum. Nauðbitið land, drullusvað og rofabörð.
Sami staður 2025



Þessi fyrsti hluti Hellisskógar var fullplantaður árið 1994. Þá var gerður nýr samningur og svæðið stækkað um 72.2 ha. Heildarstærðin var þá 126 ha.  og náði upp að Biskupstungnabraut. Hellirinn og gamla bæjartorfan varð með stækkuninni innan skógræktarsvæðisins. 
Frá upphafi var ákveðið að reyna að vernda fjögur stór mýrlendi innan svæðisins í þeim tilgangi að vernda kjörlendi votlendisvarpfugla. Einnig hefur verið notað áveitukerfi til mynda tjarnir og votlendi á nýjum svæðum. Sumt hefur tekist vel en ljóst er að þessi votlendissvæði eru smásaman að þróast yfir í skóglendi, því birki og víðir sáir sér mikið út í
friðuðu mýrarnar.

Sama sjónarhorn 2025



Árið 2003 var unnið deiliskipulag að svæðinu og í tengslum við það fór fram viðamikil skráning á fornminjum og minjastöðum í Hellisskógi.

Framkvæmdir í Hellisskógi hafa verið fjármagnaðar með félagsgjöldum, gjafafé frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum auk árlegra styrkveitinga frá Sveitarfélaginu Árborg. 

Frá upphafi framkvæmda í Hellisskógi hafa sjálfboðaliðar á vegum skógræktarfélagsins árlega unnið 2-8 kvöld við plöntun og önnur störf. Nokkur félagasamtök og klúbbar hafa einnig komið og plantað. Hópar frá grunnskólum á Selfossi hafa plantað í Hellisskóg flest ár. Vinnuflokkar frá unglingavinnu hafa lagt stíga um skóginn og unnið að viðhaldi þeirra.

Vinna við göngustíg



Júlíus Steingrímsson, einn af velgjörðarmönnum félagsins, arfleiddi félagið að öllum sínum eignum fyrir um 20 árum. Þessi höfðinglega gjöf hefur meðal annars verið nýtt til að koma upp trjásöfnum í skóginum, en trjásöfn eru nú á þremur stöðum í skóginum. Síðustu árin
hafa verið settar upp merkingar við elstu trén í trjásöfnunum og er sú vinna rétt að byrja.

Við aðal bílastæðið er elsta trjásafnið.

Á komandi árum er stefnt að áframhaldandi plöntun samkvæmt gildandi deiliskipulagi og markvissri aukningu í stígagerð og vegagerð um svæðið, bæði til að auðvelda gróðursetningu og viðhald svæðisins en einnig til að auka útivistarmöguleika.

Plantað í skjólbelti



Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga rétt eins og stefnt var að í upphafi.
Nú er búið að setja upp gönguleiðakort á áberandi stöðum og merkja þrjár góðar gönguleiðir. Alls eru gönguleiðir innan svæðisins um 8 km að lengd. Einnig hafa verið sett upp spjöld með myndum af helstu fuglategundum á svæðinu.

Miklar framkvæmdir við nýjan Suðurlandsveg og brúargerð hafa verið í Hellisskógi síðasta árið. Þetta er verk sem reiknað var með strax í upphafi 1985 en er núna loks komið í framkvæmd. Þetta veldur tímabundnum vandræðum fyrir gesti skógarins. Vegna breytinga á skipulagi sem framkvæmdir valda var ákveðið að endurnýja ekki skipulagskortið sem er við bílastæðið fyrir en að loknum framkvæmdum.

Vegagerð í september 2025



Haustið 2024 var farið í tilraunaverkefni um að byrjað á því að útbúa gönguskíðabrautir um efsta hluta Hellisskógar. Þar eru nú komnar tvær brautir, 1,1 km og 1,5 km að lengd.
Þessar brautir nýtast jafnframt sem gönguleiðir á sumrin og þegar ekki er snjór. Aðkoman er af bílastæði við Biskupstungnabraut.

Vöxtur og viðgangur trjágróðurs í Hellisskógi hefur verið framar vonum þessi 40 ár og á stóru svæði er nú að vaxa upp skógur sem er löngu farinn að standa undir nafni. Tugir gesta sækja svæðið heim daglega allan ársins hring og njóta þess skjóls og hugarró sem skógurinn veitir.

Ein af mörgum gönguleiðum um Hellisskóg.



Skógræktarfélag Selfoss á sína vefsíðu: www.hellisskogur.is. Auk fræðslu um félagið og starfsemi þess eru þar upplýsingar um Hellisskóg og fyrri plöntunarsvæði í Rauðholti og á Snæfoksstöðum.

Útivistardagur
Í tilefni af þessum tímamótum verður efnt til útivistardags í skóginum laugardaginn 4. október n.k. kl. 11-14. Þar verður boðið upp á ýmsa afþreyingu og útivist fyrir unga sem aldna, s.s. göngu um skóginn undir leiðsögn, skokk með hlaupahópnum Frískum
flóamönnum, ratleik í skóginum ásamt fræðslu um fugla í og við Helliskóg. Þá munu félagar í Stangaveiðifélaginu fræða fólk um veiðina í Ölfusá og án efa munu félagar í
„Brúarsmíðaflokknum“ mæta og ræða heimsmálin! Hátíðinni líkur svo með grilluðum pylsum, gosi, kaffi og kleinum.