Góður vöxtur

Þrátt fyrir umhleypingasamt vor og svalt og vætusamt veður sumarið 2024, var vöxtur í trjám í Hellisskógi góður.
Sitkagreni nýtur oft góðs af góðu hausti árið áður. Haustið 2023 var mjög gott og því eðlilegt að vöxtur væri góður sumarið 2024.
Lengd vaxtarsprota var vel yfir meðallagi og heilbrigði trjánna gott. Lítið um storma á viðkvæmasta tíma í júlí og ágúst og því óvenju lítið um brotna toppsprota miðað við undanfarin ár.


Strax í maí var ljóst að mikil blómgun yrði hjá sitkagreni og þegar leið á sumarið kom í ljós að mörg tré voru ríkulega skreytt könglum í toppum og sum alveg niður undir jörð.
Í haust var sannkölluð veisla hjá auðnutittlingum sem nýttu sér fræ í könglum, enda ekki mikið að hafa á birkinu.


Litrík reynitré

Eftir fremur svalt og vætusamt sumar kom kuldalegt haust. Hvort kalsaveðrið hafi hjálpað til eða eitthvað annað þá voru óvenju fallegir haustlitir í mörgum reynitegundum í september og fram í október. Þetta átti jafnt við um tré á Selfossi og í Hellisskógi.
Þar sem ekki voru mikil næturfrost í september og ekki hvassir vindar þá entust litrík blöðin á trjánum óvenju lengi. Jafnframt voru mörg trén hlaðin berjum.
Margir gestir í Hellisskógi glöddust yfir litskrúðinu. Þrestirnir voru sérlega spenntir yfir berjunum, enda kláruðust þau hratt þegar tók að kólna í okróber.
Hér eru nokkrar litríkar myndir úr Hellisskógi haustið 2024.

Fjallareynir (Sorbus commixta)
Kasmírreynir (Sorbus cashmiriana)
Kínareynir ‘Bjartur’ (Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’)
Ilmreynir (Sorbus aucuparia)
Skrautreynir (Sorbus decora)

Haustplöntun

Í blíðu veðri síðdegis á sunnudegi 29. september kom hópur skógræktarfólks saman í Hellisskógi og plantaði 50 reynitrjám af ýmsum tegundum.


Þetta voru um 1 m háar pottaplöntur. Sett var hrossatað með hverri plöntu. Taðið er góður áburður ásamt því að draga úr líkum á frostlyftingu fyrsta veturinn á nýjum stað.
Plantað var á tvo staði með veginum vestan og norðan við Grímskletta og síðan í brekku við árbakkann.


Verkið gékk vel og og í lokin fengu allir smá hressingu á nýja bekknum framan við Hellinn.
Reynitré hafa vaxið vel í Hellisskógi á undanförnum árum. Bæði er um að ræða tré sem félagsmenn hafa plantað á valda staði og síðan mikill fjöldi sjálfsáinna reyniviða um allan skóg. Í haust voru einstaklega fallegir haustlitir á reynitrjám og margir hlaðnir berjum.