Category Archives: Uncategorized

Veglokanir í Hellisskógi

Nú eru HS-veitur að leggja nýjan rafstreng að nýrri Ölfusárbrú. Vegurinn meðfram Ölfusá í Helliskógi verður lokaður á dagvinnutíma (kl. 8:00-16:00) vikuna 13.-17. október næstkomandi.
Aðgengi verður að aðalbílastæði í skóginum á verktíma. Vert er að benda á að einhver truflun verður á umferð fram að lokun vegarins vegna undirbúningsframkvæmda.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Afmælishátíð í Hellisskógi

Laugardaginn 4. október kl.11-14 var afmælishátíð í Hellisskógi. Veðrið var einstaklega gott og gestir í sólskinsskapi. Byrjað var á því að gróðursetja einn fjallareyni af afbrigðinu Dodong sem Skógræktarfélagið færði Hellisskógi að gjöf.

Á grasflötinni við aðal bílastæðið voru grillaðar pylsur ásamt meðlæti undir stjórn Snorra Sigurfinnssonar. Gengnir voru tveir hringir um skóginn undir leiðsögn Hermanns Ólafssonar og margir tóku þátt í ratleik sem Hlíf Böðvarsdóttir skipulagði. Hlaupahópurinn “Frískir Flóamenn” buðu uppá hlaupaferð um skóginn og Örn Óskarsson fræddi um fugla og tré.

Líklega komu um 100 manns á hátíðina sem þótti sérlega vel heppnuð og stjórn Skógræktarfélagsins var ánægð með hvernig til tókst.

Hellisskógur 40 ára náttúruparadís

Þann 1. október 1985 fyrir 40 árum var undirritaður samningur á milli Skógræktarfélags Selfoss og Selfossbæjar um skógræktarsvæði í landi Hellis norðan Ölfusár.
Síðan þá hefur verið unnið ötullega að skógrækt á svæðinu og nú er Hellisskógur orðin sannkölluð paradís fyrir þá sem unna hreyfingu og útivist í fallegu, skjólgóðu, skógivöxnu landi.

Í tilefni af þessum tímamótum verður efnt til útivistardags í skóginum laugardaginn 4. október n.k. kl. 11-14.
Þar verður boðið upp á ýmsa afþreyingu og útivist fyrir unga sem aldna, s.s. göngu um skóginn undir leiðsögn, skokk með hlaupahópnum Frískum flóamönnum, ratleik í skóginum ásamt fræðslu um fugla í og við Helliskóg.
Hátíðinni líkur svo með grilluðum pylsum, gosi, kaffi og kleinum.

Nánari umfjöllun er hér

Tré ársins 2025

Laugardaginn 20. september var hátíð á árbakkanum við Jóruklett á Selfossi. Þá útnefndi Skógræktarfélag Íslands sitkagrenitréð á Jórukletti tré ársins 2025.
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flutti opnunarávarp og fjórir félagar úr Lúðrasveit Selfoss blésu í lúðra.. Formaður Skógræktarfélags Árnesinga, Hreinn Óskarsson, flutti erindi ásamt bæjarstjóra Árborgar, Braga Bjarnasyni. Einnig ávarpaði Hafberg Þórisson í Lambhaga samkomuna en Lambhagi er styrktaraðili Trés ársins.

Hvernig sitkagreni komst í Jóruklett eða hver gróðursetti það þar virðist ráðgáta. Því gæti hafa verið plantað eða fræ fokið út í eyna. Það eina sem er fyrir víst er að þarna stendur það og dafnar með ágætum; eitt og sér. 

Skógfræðingarnir Björn Traustason og Aðalsteinn Sigurgeirsson gerðu mælingar á trénu og tóku sýni. Samkvæmt mælingum var tréð 9,7 metrar að hæð. Þvermál bolsins í brjósthæð (1,3 m) var 37,5 cm.

Björn Traustason og Aðalsteinn Sigurgeirsson rannsökuðu tréð.

Teknir voru tveir borkjarnar af sitkagreninu, annar í brjósthæð og hinn í hnéhæð en hvorugur hitti inn í merg. Því var ekki hægt að segja með vissu hversu tréð var gamalt. Eftir á voru borkjarnarnir rannsakaðir af Ólafi Eggertssyni árhringjasérfræðingi. Líkt og áður segir þarf borkjarni að vera tekinn sem næst jörðu og liggja þráðbeint inn að merg til að hafa fullvissu um aldur trés. Það átti ekki við í þessu tilviki en af sýnum að dæma má reikna með að tréð sé frá árinu 1969 og sé því 57 ára gamalt. Líklega er það eldra miðað við stærð trésins á mynd frá 1974. Gæti verið frá því um 1960.

Mynd af Jórukletti frá sumrinu 1974. Þar sést tréð í holunni sinni. Ljósmynd: Örn Óskarsson

Plöntun í Hellisskógi

Á degi íslenskrar náttúru 16. september tók Skógræktarfélag Selfoss á móti alþjóðlegum hópi nemenda frá “International School of Zug and Luzern” í Sviss. Nemendurnir plöntuðu 50 plöntum af ýmsum tegundum meðfram göngustíg í ofanverðum Hellisskógi. Jafnframt fengu þau fræðslu um tré og skógrækt á Íslandi. Flottur hópur og skógræktarfélagið þakkar kærlega fyrir vinnuna.

Stígagerð

Í sumar vann flokkur frá unglingavinnunni á Selfossi að stígagerð í Hellisskógi. Borin var mulnigur í stíg sem liggur inn í skóginn ofan við Hellisgil. Þar er fyrirhugað að setja upp fræðsluskilti um tré og skógrækt.
Hópurinn bar einnig möl í stíginn með ánni frá veiðistaði við stóru raflínuna og upp í Hellisgil.


Fræðsluganga um Hellisskóg

Örn Óskarsson, formaður Skógræktarfélags Selfoss, leiddi göngu um Hellisskóg, kl. 17. þriðjudaginn 1. júlí.
Gangan var hluti af heilsubótar- og fræðslugöngum Garðyrkjufélags Íslands í tilefni af 140 ára afmæli þess í ár. Sautján manns mættu í gönguna.


Eins og venjulega vakti gróskan og tegundafjölbreytnin í skóginum athygli gestanna.
Hellisskógur á einnig afmæli á árinu, en 40 ár eru í haust frá því Skógræktarfélag Selfoss fékk úthlutað landi í Hellismýri undir skógrækt.
Þar sem áður var trjálaust land er nú fjörtíu árum seinna gróskulegur skógur.

Plöntun

Fimmtudaginn 19. júní kl. 20-22 var plantað í Hellisskóg. Að þessu sinni mættu aðeins sjö í pöntun. Mikil rigningardemba síðdegis dróg líklega kjarkinn úr ýmsum.


Plantað var 120 plöntum af rauðgreni, 70 rauðelri, 35 gráelri og 375 birkiplöntum. Birki för í tætt belti næst Biskupstungnabraut en hitt innar í skóginn. Rauðgreni var plantað á milli tilraunaaspa og elrinu meðfram skurði.

Vinnukvöld í Hellisskógi

Fimmtudaginn 19. júní kl. 20 verður plantað 600 bakkaplöntum í Hellisskóg.

Að þessu sinni verður vinnusvæðið upp undir Biskupstungnabraut. 

Mæting á bílastæðið við Biskupstungnabraut.

Öll verkfæri verða á staðnum.

Veitingar að lokinni vinnu.

Vinnukvöld 15. maí

Fimmtudaginn 15. maí kl. 20-21 verður borinn áburður að sitkagreni og öspum austan við Hellinn.
Mæting við Hellinn.
Áburður og verkfæri verða á staðnum en fólk má gjarnan koma með hentugar fötur undir áburð og munið eftir hlífðarvettlingum.
Létt og aðgengileg vinna fyrir alla aldurshópa.

Veitingar verða í Hellinum að lokinni vinnu.