Skógræktarfélag Selfoss – 70 ára

Skógræktarfélag Selfoss var stofnað á fundi í Tryggvaskála 16. maí 1952 og er því 70 ára í dag 16. maí 2022. Félagið varð strax deild innan Skógræktarfélags Árnesinga. Í 2. grein félagslaga skógræktarfélagsins segir: “Tilgangur félagsins er að efla trjárækt innan bæjarins og planta skógi á ræktunarsvæðum Selfossbæjar og Skógræktarfélags Árnesinga”. Skógræktarfélag Selfoss hefur unnið óslitið að þessum markmiðum undanfarin 70 ár og plantað í reiti á Selfossi og á Snæfoksstöðum. Fyrstu 18 árin í Rauðholtsgirðinguna á Selfossi (á núverandi íþróttavallarsvæði og Gesthúsalóð). Sú skógrækt var ítrekað eyðilögð í sinueldum og loks tekin undir aðra starfsemi. Síðan var plantað í 15 ár á Snæfoksstöðum. Þar stendur nú myndarlegur furuskógur. Frá árinu 1986 hefur félagið einbeitt sér að uppbyggingu Hellisskógar við Selfoss. Þar hefur tekist vel til og er Hellisskógur frábær minnisvarði um starf félagsins síðustu 36 árin. Þó svo félagið eldist og aðstæður í þjóðfélaginu hafi breyst þá hefur starf Skógræktarfélags Selfoss haldið áfram og mun vonandi eflast enn frekar næstu áratugi. Til hamingju með 70 ára afmælið.