Í dag 21. mars er alþjóðlegur dagur skóga sem FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna heldur hátíðlegann á hverju ári.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að vera í skógi hafi jákvæð áhrif á heilsuna. Kyrrð, skjól og fuglasöngur eflir anda fólks.
Við þurfum heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk.
Skógræktarfélag Selfoss hefur í rúm 70 ár unnið ötullega að því markmiði að útbúa ákjósanleg útivistarsvæði með skógrækt. Því fjölbreytilegri sem skógar eru því jákvæðari verða áhrifin á þá sem heimsækja skóginn. Í þeim anda hefur Skógræktarfélag Selfoss byggt upp skóga og skógarlundi á Selfossi, á Snæfoksstöðum í Grímsnesi og nú síðast Hellisskóg fyrir ofan Selfoss.
Hellisskógur er 125 ha að stærð og þar eru um 8 km af gömguleiðum. Þrátt fyrir ungan aldur er Hellisskógur farinn að gefa gott skjól í öllum veðrum og því nýtist skógurinn göngufólki allan ársins hring. Þar má alltaf finna stíga i góðu skjóli.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá skjólgóðum gönguleiðum í Hellisskógi. Myndirnar voru teknar 19. mars í suðvestan roki og eljagangi en á gönguleiðunum var logn.