Haustplöntun 29. september

Sunnudaginn 29. september kl.15-17 er áætlað að planta í Hellisskóg.
Að þessu sinni verður plantað pottaplöntum af ýmsum tegundum, aðallega reyniviðum og sitkagreni. Settur verður húsdýraáburður með hverri plöntu.
Mæting við fuglaskiltin neðan við aðal bílastæðið.
Gott er að gróðursetningafólk komi með skóflur og fötur fyrir sig.
Veitingar verða í boði í Hellinum eftir plöntun.
Þetta er kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur að mæta í létt og skemmtilegt verkefni í Hellisskógi. Margar hendur vinna létt verk.
Allt verður þetta háð veðri. Nánar kynnt þegar nær dregur og útséð með veður.

Eikurnar í Hellisskógi

Á síðustu árum hefur nokkrum tugum af sumareikum (Quercus robu) verið plantað í Hellisskógi. Eikurnar sem reyndar hafa verið koma frá Þýskalandi, Danmörku og Skotlandi. Oftast hefur þeim verið plantað ársgömlum en síðustu tvö ár hafur 2-3 ára eikum verið plantað og hefur það reynst vel. Eikur þurfa gott sjól fyrstu árin en virðast þola þó nokkur harðindi eftir að rótin er búin að koma sér vel fyrir.


Skemmst er frá því að segja að flestar eikurnar lifa ágætlega en vaxa mjög hægt og einstaka hefur kalið á haustin.
Greinilega er mjög mikill einstaklingsmunur á milli trjáa af sama svæði eða tré, og mjög mismunandi hvernig þær standa sig. Eikin verður langlíf og hefur því nægan tíma til að vaxa.


Nú eru margar sænskar eikur í uppvexti og verður plantað í Hellisskóg á næstu árum.

Kurlað í Hellisskógi

Starfsmenn frá Áhaldahúsi Árborgar mættu með kurlara í trjásafnið við aðalbílastæðið í Hellisskógi þann 11. september.
Þar tóku þeir til hauga af greinum og kurluðu.
Atafnasöm ungmenni hafa á hverju ári safnað upp haugum af greinum og búið sér til skýli í trjásafninu. Þrjú slík skýli hafa verið fjarlægð í sumar.
Verst er að þar hafa verið settar upp hlóðir og kveiktir eldar. Í vor fór eldur úr böndunum þegar unglingar voru að grilla pylsur í svona hrúgaldi. Talsverður eldur varð af og tré skemmdust.
Þess vegna er nauðsynlegt að bregðast við og fjarlægja birgin þegar þau myndast.

Myndarlegt skýli í trjásafninu