Stafafura er besta jólatréð

Fyrir suma getur verið snúið að finna rétta jólatréð í stofuna.
Normansþinur eða rauðgreni eru þá oft álitin fyrirmyndartrén. Þessar tegundir eru oftast innfluttar.
Í íslenskum skógum vex stafafura með ágætum. Ásamt því að vera ræktuð á Íslandi (gjaldeyrissparandi) er hún talin sameina kosti hins fullkomna jólatrés, þéttvaxin, litfögur, ilmar vel og er einstaklega barrheldin.
Grenitegundirnar halda barrinu verr og sumar mjög illa í stofuhita. Sitkagrenið er prýðis útitré en fellir barr á nokkrum dögum í stofuhita. Hvítgreni er enn verra, tapar barrinu hratt og lyktar þar að auki mjög illa (kattahlandslykt).
Best er að halda sig við stafafuruna.
Skógræktarfélag Selfoss er ekki með jólatré til sölu.
Á Snæfoksstöðum í Grímsnesi er Skógræktarfélag Árnesinga með nóg af stafafuru fyrir jólin, bæði hægt að sækja sjálf i skóginn eða kaupa fyrirframhöggin tré.
Sjá: https://www.facebook.com/snaefokstadir/?locale=is_IS

Flugháll göngustígur

Einn göngustígur í Hellisskógi er sérlega gjarn á að safna miklum klakabunkum í löngum frostaköflum eins og verið hefur undanfarið.
Þessi stígur er meðfram Ölfusá upp að Hellisgili (hluti af rauðu gönguleiðinni).
Stígurinn er hættulegur yfirferðar og gestir stógarins þurfa að fara sérstaklega varlega. Best er að velja aðrar leiðir einkum þegar hlánar.

Skógar eru enn mikilvægari – ný rannsókn

Hópur vísindamanna undir forystu Cornell háskólans, með stuðningi frá Oak Ridge National Laboratory hefur þróað nýja aðferð til að meta ljóstillífun og kolefnisbindingu í plöntum.
Rannsóknarniðurstöður benda til þess að plöntur um allan heim gleypi um 31% meiri koltvísýring en áður var talið.
Rannsókninni er lýst í smáatriðum í tímaritinu Nature. Reiknað er með að hún muni bæta líkön sem vísindamenn nota til að spá fyrir um framtíðarloftslag, og varpa ljósi á mikilvægi náttúrulegrar kolefnisbindingar til að draga úr gróðurhúsalofttegundum.

Birki í Hellisskógi

Uppgötvunin bendir til þess að skógar, einkum regnskógar séu mikilvægari í náttúrulegri bindingu kolefnis en áður var áætlað.

Skilningur á því hversu mikið kolefni er hægt að geyma í vistkerfum lands, sérstaklega í skógum, er nauðsynlegur til að spá fyrir um loftslagsbreytingar í framtíðinni. 

Sjá nánar:
https://www.ornl.gov/news/plant-co2-uptake-rises-nearly-one-third-new-global-estimates?fbclid=IwY2xjawHCrGZleHRuA2FlbQIxMQABHb7_0RcIOfPUx2jMvgZI_DUQ1ISnUtPBa4apmD0cFBb2WsTHXKe_Budk0g_aem_tWC6yRk9NMGUMioBkg7RoA


Myndir eru af gróskulegum sitkagreni-, birki- og asparlundum í Hellisskógi.

Alaskaösp í Hellisskógi