Veglokanir í Hellisskógi

Nú eru HS-veitur að leggja nýjan rafstreng að nýrri Ölfusárbrú. Vegurinn meðfram Ölfusá í Helliskógi verður lokaður á dagvinnutíma (kl. 8:00-16:00) vikuna 13.-17. október næstkomandi.
Aðgengi verður að aðalbílastæði í skóginum á verktíma. Vert er að benda á að einhver truflun verður á umferð fram að lokun vegarins vegna undirbúningsframkvæmda.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Afmælishátíð í Hellisskógi

Laugardaginn 4. október kl.11-14 var afmælishátíð í Hellisskógi. Veðrið var einstaklega gott og gestir í sólskinsskapi. Byrjað var á því að gróðursetja einn fjallareyni af afbrigðinu Dodong sem Skógræktarfélagið færði Hellisskógi að gjöf.

Á grasflötinni við aðal bílastæðið voru grillaðar pylsur ásamt meðlæti undir stjórn Snorra Sigurfinnssonar. Gengnir voru tveir hringir um skóginn undir leiðsögn Hermanns Ólafssonar og margir tóku þátt í ratleik sem Hlíf Böðvarsdóttir skipulagði. Hlaupahópurinn “Frískir Flóamenn” buðu uppá hlaupaferð um skóginn og Örn Óskarsson fræddi um fugla og tré.

Líklega komu um 100 manns á hátíðina sem þótti sérlega vel heppnuð og stjórn Skógræktarfélagsins var ánægð með hvernig til tókst.