Hellisbrú lagfærð

Miðvikudaginn 22. október var vinnudagur hjá Brúarvinnuflokki Ingva Rafns.
Þeir félagar óku viðarkuli í Hellisbrúna í Hellisskógi sem víða er blaut og óslétt.


Kurlið fékk Brúarvinnuflokkurinn hjá Skógræktarfélagi Árnesinga á Snæfoksstöðum. Notuð voru hin ýmsu verkfæri sem flokkurinn féll lánuð hjá velunnurum.
Mun meira þarf að kurli til að klára verkið. Hellisbrúin verður betri og betri við hvert sinn sem Brúarvinnuflokkurinn tekur til hendinni í Hellisskógi.


Skógræktarfélag Selfoss þakkar Brúarvinnuflokknum kærlega fyrir vel unnin störf í Hellisskógi og Skógræktarfélagi Árnesinga fyrir kurlið.

Veglokanir í Hellisskógi

Nú eru HS-veitur að leggja nýjan rafstreng að nýrri Ölfusárbrú. Vegurinn meðfram Ölfusá í Helliskógi verður lokaður á dagvinnutíma (kl. 8:00-16:00) vikuna 13.-17. október næstkomandi.
Aðgengi verður að aðalbílastæði í skóginum á verktíma. Vert er að benda á að einhver truflun verður á umferð fram að lokun vegarins vegna undirbúningsframkvæmda.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Afmælishátíð í Hellisskógi

Laugardaginn 4. október kl.11-14 var afmælishátíð í Hellisskógi. Veðrið var einstaklega gott og gestir í sólskinsskapi. Byrjað var á því að gróðursetja einn fjallareyni af afbrigðinu Dodong sem Skógræktarfélagið færði Hellisskógi að gjöf.

Á grasflötinni við aðal bílastæðið voru grillaðar pylsur ásamt meðlæti undir stjórn Snorra Sigurfinnssonar. Gengnir voru tveir hringir um skóginn undir leiðsögn Hermanns Ólafssonar og margir tóku þátt í ratleik sem Hlíf Böðvarsdóttir skipulagði. Hlaupahópurinn “Frískir Flóamenn” buðu uppá hlaupaferð um skóginn og Örn Óskarsson fræddi um fugla og tré.

Líklega komu um 100 manns á hátíðina sem þótti sérlega vel heppnuð og stjórn Skógræktarfélagsins var ánægð með hvernig til tókst.