Laugardaginn 20. september var hátíð á árbakkanum við Jóruklett á Selfossi. Þá útnefndi Skógræktarfélag Íslands sitkagrenitréð á Jórukletti tré ársins 2025.
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flutti opnunarávarp og fjórir félagar úr Lúðrasveit Selfoss blésu í lúðra.. Formaður Skógræktarfélags Árnesinga, Hreinn Óskarsson, flutti erindi ásamt bæjarstjóra Árborgar, Braga Bjarnasyni. Einnig ávarpaði Hafberg Þórisson í Lambhaga samkomuna en Lambhagi er styrktaraðili Trés ársins.

Hvernig sitkagreni komst í Jóruklett eða hver gróðursetti það þar virðist ráðgáta. Því gæti hafa verið plantað eða fræ fokið út í eyna. Það eina sem er fyrir víst er að þarna stendur það og dafnar með ágætum; eitt og sér.

Skógfræðingarnir Björn Traustason og Aðalsteinn Sigurgeirsson gerðu mælingar á trénu og tóku sýni. Samkvæmt mælingum var tréð 9,7 metrar að hæð. Þvermál bolsins í brjósthæð (1,3 m) var 37,5 cm.

Teknir voru tveir borkjarnar af sitkagreninu, annar í brjósthæð og hinn í hnéhæð en hvorugur hitti inn í merg. Því var ekki hægt að segja með vissu hversu tréð var gamalt. Eftir á voru borkjarnarnir rannsakaðir af Ólafi Eggertssyni árhringjasérfræðingi. Líkt og áður segir þarf borkjarni að vera tekinn sem næst jörðu og liggja þráðbeint inn að merg til að hafa fullvissu um aldur trés. Það átti ekki við í þessu tilviki en af sýnum að dæma má reikna með að tréð sé frá árinu 1969 og sé því 57 ára gamalt. Líklega er það eldra miðað við stærð trésins á mynd frá 1974. Gæti verið frá því um 1960.
