Tvær bekkjasamstæður voru settar upp í Hellisskógi þann 21. apríl síðastliðinn. Bekkina gaf Húsasmiðjan Skógræktarfélaginu. Gönguhópur Ingva Rafns aðstoðaði við að koma bekkjunum á sinn stað í skóginum. Annar bekkurinn var settur við suðurenda Hellisbrúar og hinn við göngustíg með Ölfusá rétt við Hellisgil. Endanlegur frágangur við bekkina verður á næstu vikum. Skógræktarfélag Selfoss þakkar Húsasmiðjunni fyrir þessa veglegu gjöf og gönguhópnum fyrir vinnuframlagið. Með sívaxandi umferð gesta um Hellisskóg er mikill fengur af svona gjöf og þjónustustarfi gönguhópsins. Gönguhópur Ingva Rafns samanstendur af níu körlum á besta aldri sem hafa síðastliðið ár verið iðnir við að lagfæra göngubrýr, bekki, grindverk og skilti í skóginum.