Laufgun trjáa er núna um þremur til fjórum vikum fyrr á ferðinni en í meðalári. Á ferð um Hellisskóg 7. maí kom í ljós að flestir reyniviðir, nema alpareynir voru allaufgaðir. Flest asparkvæmi voru laufguð, nema t.d. kvæmið Brekkan. Flestar elritegundir eru komnar með smáblöð og margar birkiplöntur eru allaufgaðar og flestar komnar með smáblöð. Brum á greni, furum og hlynplöntum eru að opna sig en brun eru aðeins farin að þrútna á eik og gullregni.


Meira að segja lúpína og hófsóley eru farin að blómstra.
Á árunum kringum 1980 var laufgun trjáa metin hér á Selfossi. Þá kom í ljós að birki var komið með smáblöð um 10 júní, mánuði síðar en nú.
Nú vonum við heitt og innilega að ekki komi maíhret með roki og kulda, þá gæti gróður farið illa.


Myndir eru teknar í Hellisskógi 7. maí 2025.