Category Archives: Uncategorized

Flugháll göngustígur

Einn göngustígur í Hellisskógi er sérlega gjarn á að safna miklum klakabunkum í löngum frostaköflum eins og verið hefur undanfarið.
Þessi stígur er meðfram Ölfusá upp að Hellisgili (hluti af rauðu gönguleiðinni).
Stígurinn er hættulegur yfirferðar og gestir stógarins þurfa að fara sérstaklega varlega. Best er að velja aðrar leiðir einkum þegar hlánar.

Skógar eru enn mikilvægari – ný rannsókn

Hópur vísindamanna undir forystu Cornell háskólans, með stuðningi frá Oak Ridge National Laboratory hefur þróað nýja aðferð til að meta ljóstillífun og kolefnisbindingu í plöntum.
Rannsóknarniðurstöður benda til þess að plöntur um allan heim gleypi um 31% meiri koltvísýring en áður var talið.
Rannsókninni er lýst í smáatriðum í tímaritinu Nature. Reiknað er með að hún muni bæta líkön sem vísindamenn nota til að spá fyrir um framtíðarloftslag, og varpa ljósi á mikilvægi náttúrulegrar kolefnisbindingar til að draga úr gróðurhúsalofttegundum.

Birki í Hellisskógi

Uppgötvunin bendir til þess að skógar, einkum regnskógar séu mikilvægari í náttúrulegri bindingu kolefnis en áður var áætlað.

Skilningur á því hversu mikið kolefni er hægt að geyma í vistkerfum lands, sérstaklega í skógum, er nauðsynlegur til að spá fyrir um loftslagsbreytingar í framtíðinni. 

Sjá nánar:
https://www.ornl.gov/news/plant-co2-uptake-rises-nearly-one-third-new-global-estimates?fbclid=IwY2xjawHCrGZleHRuA2FlbQIxMQABHb7_0RcIOfPUx2jMvgZI_DUQ1ISnUtPBa4apmD0cFBb2WsTHXKe_Budk0g_aem_tWC6yRk9NMGUMioBkg7RoA


Myndir eru af gróskulegum sitkagreni-, birki- og asparlundum í Hellisskógi.

Alaskaösp í Hellisskógi

Viðgerðir á gönguleiðum

Í hlýjindakaflanum í nóvember notuðu skógræktarmenn tækifærið og löguðu skakkar göngubrýr og byggðu eina nýja. Þessar brýr voru komnar nokkuð til ára sinna og að auki höfðu lækjarfarvegir breikkað með árunum og grafið undan brúnum.
Það var mikils virði að fara ekki inn í veturinn með hallandi og hættulegar brýr á vinsælum göngu og skokkleiðum.

Formaður fékk þá Sigmund Stefánsson, Jens Sigurðsson og Gísla Skúlason með sér í verkið. Verkið gékk fljótt og vel. Hér má sjá nokkrar myndir frá framkvæmdunum.

Gönguskíðabraut í Hellisskógi

Í sumar hafði áhugamaður um gönguskíðabrun samband við skógræktarmenn og kannaði hvort vilji væri fyrir því hjá Skógræktarfélagi Selfoss að leggja gönguskíðabrautir um Hellisskóg. Félagið tók vel í þessa málaleitan.


Þann 20. október mættu nokkrir skógræktarmenn í Hellisskóg og mældu út 1,2 km leið um norðvesturhorn skógarins uppundir Biskupstungnabraut.
Á nokkrum stöðum voru tré felld til að koma brautinni fyrir.


Þriðjudaginn 5. nóvember kom Guðjón Helgi Ólafsson með traktor og tætara og tætti upp og jafnaði brautina. Skíðabrautin byrjar og endar við bílastæðið við Biskupstungnabraut.


Tætingin verður látin síga svolítið áður en hún verður þjöppuð með vélsleða. Leiðin verður stikuð og bekkur og skilti sett við bílastæðið.
Svo er bara að bíða eftir að snjói svo hægt verði að setja spor og vígja brautina.


Á sumrin verður þetta upplögð gönguleið um efri hluta Hellisskógar.
Ef vel tekst til og áhugi verður á gönguskíðaiðkun í skógarskjóli í Hellisskógi, þá eru nú þegar áform um fleiri leiðir um skóginn.

Gróskulegt birki sumarið 2024

Margar tegundir meindýra herja á íslensku ilmbjörkina. Þetta eru fiðrildalirfur eins og tígulvefari, birkivefari, haustfeti og birkifeti. Stundum verða skaðar svo miklir af völdum þessara lirfa að trén drepast á stóru svæði. Minna tjón er af völdum birkiblaðlúsa eða birkisprotalúsa. Birkiryð getur dregið úr vaxtarþrótti. Allt hefur þetta fundist í Hellisskógi en ekki valdið teljandi skaða.
Undanfarin ár hafa nýjar tegundir bæst við og valdið miklu tjóni. Þekktastar eru birkikemba (fiðrildalirfa) og birkiþéla (blaðvespulirfa). Þessar tegundir skemma laufblöð sem veldur minni ljóstillífun trjánna og þar með minni vexti og þrifum.
Þessar tegundir hafa síðust 5-8 ár valdið miklum skaða á birkiskógum á Suðurlandi og þar með í Hellisskógi. Skógurinn hefur orðið brúnn yfir að líta. Verst var ástandið sumarið 2017.

Birkiskógurinn varð brúnleitur vegna blaðskemmda af völdum birkikembu sumarið 2017. Mynd frá 19. júní 2017.


Sumarið 2024 brá svo við að þessir skaðvaldar sáust lítið sem ekkert í Hellisskógi.
Hvað veldur er erfitt að segja um? Sumir telja orsökina kalt og rakt sumar. Ekki eru það sennilegt því miklar skemmdir vegna birkikembu voru víða annarsstaðar á Suðurlandi.
Sennilegri skýring er að sjúkdómar eða afræningjar séu byrjaðir að herja á pöddurnar. Vísbendingar eru um það. Tími og rannsóknir verður síðan að leiða í ljós hvort það sé skýringin og hvort um varanlegt ástand sé um að ræða.
Sem sagt sumarið 2024 var birki einstaklega hraustlegt og fallegt í Hellisskógi og haustlitir á birki meiri en sést hafa í áratugi.

Sumarið 2024 var birkið einstaklega blaðfallegt og skemmdir vegna meindýra sáust varla. Haustlitir stóðu óvenju lengi. Mynd frá 12. október 2024.

Góður vöxtur

Þrátt fyrir umhleypingasamt vor og svalt og vætusamt veður sumarið 2024, var vöxtur í trjám í Hellisskógi góður.
Sitkagreni nýtur oft góðs af góðu hausti árið áður. Haustið 2023 var mjög gott og því eðlilegt að vöxtur væri góður sumarið 2024.
Lengd vaxtarsprota var vel yfir meðallagi og heilbrigði trjánna gott. Lítið um storma á viðkvæmasta tíma í júlí og ágúst og því óvenju lítið um brotna toppsprota miðað við undanfarin ár.


Strax í maí var ljóst að mikil blómgun yrði hjá sitkagreni og þegar leið á sumarið kom í ljós að mörg tré voru ríkulega skreytt könglum í toppum og sum alveg niður undir jörð.
Í haust var sannkölluð veisla hjá auðnutittlingum sem nýttu sér fræ í könglum, enda ekki mikið að hafa á birkinu.


Litrík reynitré

Eftir fremur svalt og vætusamt sumar kom kuldalegt haust. Hvort kalsaveðrið hafi hjálpað til eða eitthvað annað þá voru óvenju fallegir haustlitir í mörgum reynitegundum í september og fram í október. Þetta átti jafnt við um tré á Selfossi og í Hellisskógi.
Þar sem ekki voru mikil næturfrost í september og ekki hvassir vindar þá entust litrík blöðin á trjánum óvenju lengi. Jafnframt voru mörg trén hlaðin berjum.
Margir gestir í Hellisskógi glöddust yfir litskrúðinu. Þrestirnir voru sérlega spenntir yfir berjunum, enda kláruðust þau hratt þegar tók að kólna í okróber.
Hér eru nokkrar litríkar myndir úr Hellisskógi haustið 2024.

Fjallareynir (Sorbus commixta)
Kasmírreynir (Sorbus cashmiriana)
Kínareynir ‘Bjartur’ (Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’)
Ilmreynir (Sorbus aucuparia)
Skrautreynir (Sorbus decora)

Haustplöntun

Í blíðu veðri síðdegis á sunnudegi 29. september kom hópur skógræktarfólks saman í Hellisskógi og plantaði 50 reynitrjám af ýmsum tegundum.


Þetta voru um 1 m háar pottaplöntur. Sett var hrossatað með hverri plöntu. Taðið er góður áburður ásamt því að draga úr líkum á frostlyftingu fyrsta veturinn á nýjum stað.
Plantað var á tvo staði með veginum vestan og norðan við Grímskletta og síðan í brekku við árbakkann.


Verkið gékk vel og og í lokin fengu allir smá hressingu á nýja bekknum framan við Hellinn.
Reynitré hafa vaxið vel í Hellisskógi á undanförnum árum. Bæði er um að ræða tré sem félagsmenn hafa plantað á valda staði og síðan mikill fjöldi sjálfsáinna reyniviða um allan skóg. Í haust voru einstaklega fallegir haustlitir á reynitrjám og margir hlaðnir berjum.

Haustplöntun 29. september

Sunnudaginn 29. september kl.15-17 er áætlað að planta í Hellisskóg.
Að þessu sinni verður plantað pottaplöntum af ýmsum tegundum, aðallega reyniviðum og sitkagreni. Settur verður húsdýraáburður með hverri plöntu.
Mæting við fuglaskiltin neðan við aðal bílastæðið.
Gott er að gróðursetningafólk komi með skóflur og fötur fyrir sig.
Veitingar verða í boði í Hellinum eftir plöntun.
Þetta er kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur að mæta í létt og skemmtilegt verkefni í Hellisskógi. Margar hendur vinna létt verk.
Allt verður þetta háð veðri. Nánar kynnt þegar nær dregur og útséð með veður.

Eikurnar í Hellisskógi

Á síðustu árum hefur nokkrum tugum af sumareikum (Quercus robu) verið plantað í Hellisskógi. Eikurnar sem reyndar hafa verið koma frá Þýskalandi, Danmörku og Skotlandi. Oftast hefur þeim verið plantað ársgömlum en síðustu tvö ár hafur 2-3 ára eikum verið plantað og hefur það reynst vel. Eikur þurfa gott sjól fyrstu árin en virðast þola þó nokkur harðindi eftir að rótin er búin að koma sér vel fyrir.


Skemmst er frá því að segja að flestar eikurnar lifa ágætlega en vaxa mjög hægt og einstaka hefur kalið á haustin.
Greinilega er mjög mikill einstaklingsmunur á milli trjáa af sama svæði eða tré, og mjög mismunandi hvernig þær standa sig. Eikin verður langlíf og hefur því nægan tíma til að vaxa.


Nú eru margar sænskar eikur í uppvexti og verður plantað í Hellisskóg á næstu árum.