Category Archives: Uncategorized

Hreinsað úr skurði

Í bleytutíðinni undanfarið hefur reynt talsvert á fráveitukerfið í Hellisskógi. Í sumar stíflaðist eitt ræsi framan við Grímskletta og skurðurinn varð barmafullur af vatni á um 500 m kafla. Ástæðan var sambland af mikilli leirdrullu og trjágreinum. 

Þegar borað var eftir heitu vatni í Hellisskógi fyrir nokkrum árum var miklu magni af borsalla veitt út í skurðinn. Drullan er smám saman að færast neðar eftir skurðinum og stífla hann.

Anna Margrét gröfustjóri hjá Árborg kom í lok júlí og hreinsaði frá ræsinu með góðum árangri.

Lagfæringar á Hellisbrú

 Í sumar hefur verið unnið að lagfæringum á Hellisbrú í Hellisskógi. Á nokkrum stöðum hefur þetta gamla mannvirki sigið ofan í mýrina og full þörf á lagfæringum til að brautin sé vel fær í öllum veðrum. 

Brúarvinnuflokkur Ingva Rafns hefur annast verkið af miklum myndarskap. Sigtún þróunarfélag veitti myndarlegan styrk til verksins. 

Hér eru nokkrar myndir frá 5. júlí þegar verið var að koma fyrir timburbrú yfir helstu bleytusvæðin.

Skógræktarfélag Selfoss þakkar kærlega fyrir gott framtak.

Plöntun í Hellisskógi

Fimmtudaginn 27. júní (kl.20-22) var plantað í Hellisskóg í blíðskapar veðri. Sautján félagsmenn mættu.
Plantað var um 750 plöntum af birki, sitkagreni, svartelri, gráelri og ryðelri meðfram göngustíg vestan við Hellinn. Verkið gékk hratt og vel.
Að lokinni vinnu var boðið uppá kvöldhressingu og létt spjall við Hellinn.

Plöntunarkvöld í Hellisskógi

Fimmtudaginn 27. júní kl. 20 verður plantað í Hellisskógi. Mæting við Hellinn.
Plantað verður 750 plöntum af birki, sitkagreni, svartelri, gráelri og ryðelri.
Létt og skemmtileg vinna fyrir alla fjölskylduna.
Allir velkomnir.
Boðið verður uppá hressingu í Hellinum eftir vinnu.

Áburður á græðlingaaspir

Miðvikudaginn 5. júní kom hópur félaga úr Skógræktarfélags Selfoss í Hellisskóg og bar áburð með öspum. Þetta voru aspir sem stungið var niður í móann vestan við Hellinn vorin 2022 og 2023. Vöxtur hefur verið lítill í trjánum m.a. vegna ágengni asparglittu.


Því þótti rétt að hressa upp á vöxtinn með áburðargjöf. Notaður var áburðurinn “blákorn”. Áburðurinn var settur í holu við hlið plantnanna svo hann nýttist trjánum sem best og yki síður grasvöxt. Verkið gékk vel í góðu veðri.

Vinnukvöld í Hellisskógi

Miðvikudaginn 5. júní verður vinnukvöld í Hellisskógi.
Mæting kl. 20 við Hellinn.

Unnið verður við áburðargjöf á græðlingaaspir vestan við Hellinn.
Gott væri að mæta með fötur og vinnuvettlinga.

Vinna við allra hæfi og allir velkomnir.
Veitingar verða í boði í Hellinum eftir vinnu.

Vor í Árborg 2024

Þann 27. apríl var fræðsluganga um Hellisskóg. Gangan var liður í hátíðarhöldum í “vor í Árborg. Hlíf Böðvarsdóttir og Örn Óskarsson úr stjórn  Skógræktarfélags Selfoss leiddu gönguna. Boðið var upp á stimpil í vegabréf og einhverjir þáðu það.

Aðalfundur 2024

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss er miðvikudaginn 17. apríl 2024 kl 20:00 í skemmunni á Snæfoksstöðum.

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Kynning á starfsemi Skógræktarfélags Árnesinga á Snæfoksstöðum.
    Allir eru velkomnir

Alþjóðlegur dagur skóga 2024

Í dag 21. mars er alþjóðlegur dagur skóga sem FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna heldur hátíðlegann á hverju ári.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að vera í skógi hafi jákvæð áhrif á heilsuna.  Kyrrð, skjól og fuglasöngur eflir anda fólks.
Við þurfum heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk.
Skógræktarfélag Selfoss hefur í rúm 70 ár unnið ötullega að því markmiði að útbúa ákjósanleg útivistarsvæði með skógrækt. Því fjölbreytilegri sem skógar eru því jákvæðari verða áhrifin á þá sem heimsækja skóginn. Í þeim anda hefur Skógræktarfélag Selfoss byggt upp skóga og skógarlundi á Selfossi, á Snæfoksstöðum í Grímsnesi og nú síðast Hellisskóg fyrir ofan Selfoss.
Hellisskógur er 125 ha að stærð og þar eru um 8 km af gömguleiðum. Þrátt fyrir ungan aldur er Hellisskógur farinn að gefa gott skjól í öllum veðrum og því nýtist skógurinn göngufólki allan ársins hring. Þar má alltaf finna stíga i góðu skjóli.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá skjólgóðum gönguleiðum í Hellisskógi. Myndirnar voru teknar 19. mars í suðvestan roki og eljagangi en á gönguleiðunum var logn.