Plöntun sumarið 2022

Gert klárt fyrir græðlingaplöntun 8. maí 2022

Sumarið 2022 var plantað alls 1850 plöntum af 34 tegundum. Þar af voru 1480 græðlingar af alaskaösp.
Aðrar tegundir voru birki, jörvavíðir, sitkagreni, hvítgreni, garðahlynur, broddhlynur, ilmreynir, koparreynir, skrautreynir, kasmírreynir, rúbínreynir, fjallareynir, kínareynir, úlfareynir, alpareynir og lerki (hrymur), auk stakra trjáa og runna í trjásafnið.

Plantað reynitrjám meðfram Simmastíg 7. október 2022.

Félagar í Skógræktarfélagi Selfoss plöntuðu 8 maí. Þá var stungið niður 1300 aspar græðlingum vestan við Hellinn. Aftur var plantað 7. október meðfram Simmastíg, 50 pottaplöntum af 9 mismunandi reynitegundum.

Hópur nemenda frá eyjunum Reunion, Azoreyjum og Kýpur plöntuðu 19. maí 2022.

Hópur nemenda sem voru í heimsókn í FSu plöntuðu 70 pottaplöntum í svokallað “Stjánatún” þann 19. maí. Þetta var liður í því að efla umhverfisvitund nemendanna enda öll komin frá fjarlægum eyjum, með tilheyrandi kolefnisspori.

Plöntun í Hellisskógi 1. júlí 2022.

Í júlíbyrjun mættu 40 krakkar ásamt 15 starfsmönnum frá Árborg og plöntuðu 60 birkiplöntum vestan við Hellinn.
Þetta er orðið árvisst að krakkahópar á sumarnámsskeiðum komi í Hellisskóg til að planta trjám.


Merking gönguleiða í Hellisskógi

Sumarið 2022 var unnið að merkingu gönguleiða í Hellisskógi. Settar voru litamerktar stikur við þrjár gönguleiðir. Bláa leiðin (litli hringur 2,1 km), rauða leiðin (stóri hringur 3,4 km) og appelsínugula leiðin (Hellisbrú 1,5 km). Alls er stígar i Hellisskógi um 8 km að lengd.
Í lok september voru sett upp gönguleiðakort á þremur stöðum. Núna geta gestir valið sér gönguleiðir við hæfi án þess að eiga á hættu að villast í skóginum.

Starfsmenn Árborgar sáu um merkingar gönguleiða og uppsetningu kortum.

Eitt af þremur gönguleiðakortum í Hellisskógi.

Sigling út í Fremri Laugardælaeyju 17. september 2022

Í tilefni 70 ára afmælis Skógræktarfélags Selfoss bauð félagið upp á ferð í Fremri Laugadælaeyju laugardaginn 17. september. Veður var mjög gott til útiveru og siglinga. Bátasveit Björgunarfélags Árborgar sá um að ferja gesti út í eyju og 70 gestir þáðu boðið. Siglt var frá kl. 10 til 12 og voru tveir bátar í stöðugum siglingum. Boðið var uppá veitingar í eyjunni. 

Í Fremri Laugardælaeyju vaxa tvö silfurreynitré sem plantað var um 1890.

Björgunarfélag Árborgar sá um að ferja gesti út í eyju.
Boðið var upp á veitingar í Laugardælaeyju. Gott útsýni til allra átta.
Gömlu silfurreynitrén í Laugardælaeyju eru með elstu trjám sem nú vaxa á Íslandi. Hafa vaxið hægt við þröngan kost og hafa orðið fyrir mörgum áföllum á lífsleiðinni.

Skógræktarfélag Selfoss – 70 ára

Skógræktarfélag Selfoss var stofnað á fundi í Tryggvaskála 16. maí 1952 og er því 70 ára í dag 16. maí 2022. Félagið varð strax deild innan Skógræktarfélags Árnesinga. Í 2. grein félagslaga skógræktarfélagsins segir: “Tilgangur félagsins er að efla trjárækt innan bæjarins og planta skógi á ræktunarsvæðum Selfossbæjar og Skógræktarfélags Árnesinga”. Skógræktarfélag Selfoss hefur unnið óslitið að þessum markmiðum undanfarin 70 ár og plantað í reiti á Selfossi og á Snæfoksstöðum. Fyrstu 18 árin í Rauðholtsgirðinguna á Selfossi (á núverandi íþróttavallarsvæði og Gesthúsalóð). Sú skógrækt var ítrekað eyðilögð í sinueldum og loks tekin undir aðra starfsemi. Síðan var plantað í 15 ár á Snæfoksstöðum. Þar stendur nú myndarlegur furuskógur. Frá árinu 1986 hefur félagið einbeitt sér að uppbyggingu Hellisskógar við Selfoss. Þar hefur tekist vel til og er Hellisskógur frábær minnisvarði um starf félagsins síðustu 36 árin. Þó svo félagið eldist og aðstæður í þjóðfélaginu hafi breyst þá hefur starf Skógræktarfélags Selfoss haldið áfram og mun vonandi eflast enn frekar næstu áratugi. Til hamingju með 70 ára afmælið.

Minningarreitur um Ólaf Hákon

Þriðjudaginn 23. júlí 2019 var vígður í Hellisskógi minningarreitur um Ólaf Hákon Guðmundsson. Jónína Magnúsdóttir eiginkona Ólafs heitins afhjúpaði minningarskjöld í reitnum að viðstöddum vinum og vandamönnum og ávarpaði gesti.
Ólafur var virkur félagi í Skógræktarfélaginu Selfoss og sat í stjórn félagsins í mörg ár. Síðustu árin sá hann um verkstjórn í sumarvinnunni í Hellisskógi og sá um viðhald á bekkjum og stígum í skóginum. 
Gerð minningarreitsins var unnin af starfsmönnum skógræktarfélagsins í samstarfi við aðstandendur Ólafs. Plantað var runnum, settur upp minningarskjöldur á klettavegg, lagður stígur og komið fyrir bekk. Þór Sigmundsson steinsmiður útbjó minningarskjöldinn.

Jónína Magnúsdóttir afhjúpar minningarskjöldinn í Hellisskógi.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands á Selfossi

Ræðuhöld i Hellisskógi.

Dagana 27.-29. ágúst 2010 var aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2010 haldinn á Selfossi. Gestgjafar fundarins að voru Skógræktarfélag Árnesinga. Einn dagskrárliðurinn á laugardeginum 28. ágúst var fræðsluganga um Hellisskóg undir umsjón Skógræktarfélags Selfoss. Gengið var frá Hótel Selfoss upp að Helli og til baka aftur. Bjarni Harðarson var göngustjóri. Fjölmenni var í göngunni og veðrið lék við göngufólkið. Hellisskógur skartaði sínu fegursta og gróskan í skóginum vakti verðskuldaða athugli. 

Plöntun á perutré.
Landsþingsgestir við Hellinn.

Minnismerki vígt í Hellisskógi

Mánudaginn 23. ágúst 2010 var minnismerki og listaverk afhjúpað í Hellisskógi. Verkið er til minningar um Júlíus Steingrímsson velgjörðarmann Skógræktarfélags Selfoss sem hefði orðið 100 ára 29. ágúst. Júlíus var mikill áhugamaður um skógrækt og tók virkan þátt í starfinu í Hellisskógi á meðan hann hafði heilsu til. Hann lést árið 2003 og ánafnaði félaginu stóran hluta af eigum sínum.
Verkið heitir “Hornsteinn og aðrir steinar á og við horn”. Þór Sigmundsson steinsmiður hannaði og smíðaði verkið.

Frá víxluathöfninni.

Nýr Samningur um Hellisskóg

Miðvikudaginn 26. maí 2010 var undirritaður í Hellisskógi nýr umsjónasamningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Skógræktarfélags Selfoss. 
Á myndinni hér fyrir neðan sjást Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri og Björgvin Eggertsson formaður Skógræktarfélags Selfoss við undirritunina í Hellisskógi.

Björgvin Örn formaður félagsins og Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri undirita samninginn.