All posts by krissie

Fuglaskilti í Hellisskógi.

Í Hellisskógi og á Ölfusá við skóginn er mikið fuglalíf. Til að auðvelda gestum skógarins að þekkja fuglana hafa verið útbúin skilti með algengustu tegundunum. Skiltin sína fugla á Ölfusá, í skóginum og á opnum svæðum í Hellisskógi. 

Nú eru fyrstu þrjú fuglaskiltin tilbúin og komin á sinn stað í Hellisskógi. Alls verða skiltin sex. þrjú eru komin rétt við aðal bílastæðið og öðrum þremur verður síðar dreift um skóginn. Verkefnið er styrkt af Pokasjóði fyrir tilstuðlan Ferðafélags Árnesinga.

Einn bekkur enn

Í sumar hefur Húsasmiðjan gefið Skógræktarfélagi Selfoss þrjá bekki til að nota í Hellisskógi. Þriðja bekknum var komið á sinn stað í gær. Hlaupahópurinn Frískir Flóamenn sá um að bera bekkinn 350 m og koma honum fyrir við Réttarklett. Skógræktarfélagið þakkar Húsasmiðjunni kærlega fyrir gjafirnar í sumar og göngu hópi Ingva Rafns fyrir að koma bekkjum 1 og 2 fyrir og Frískum fyrir bekk þrjú
Hér eru myndir af flutningi og uppsetningu.

Plöntunarkvöld í Hellisskógi

Mánudaginn 12. júní kl 20:00 verður vinnukvöld í Hellisskógi. Þá verður plantað bakkaplöntum af nokkrum tegundum með verðandi gönguleið austan við Hellinn. Verkfæri verða á staðnum. Mæting við Hellinn. Léttar veitingar verða í Hellinum að lokinni vinnu. 

Vinnudagar í Hellisskógi í maí

Miðvikudagur 10. maí kl. 20:00.
Mæting á aðal bílastæði.
Möl ekið í stíga og að nýju bekkjunum. Mæta með skóflur og gott ef einhverjir gætu komið með hjólbörur. Ekki mikið verk.
Ef tími vinnst til verða stungnar upp nokkrar hnausaplöntur.

Sunnudagur 14. maí kl. 16:00.
Mæting við Hellinn.
Stungið niður aspargræðlingum.
Létt og einföld vinna. Upplagt verkefni fyrir fjölskyldur með börn.

Boðið verður uppá veitingar í Hellinum eftir vinnu.

Í júní eða október verður plöntun í Hellisskógi. Nánari tímasetning verður auglýst síðar. Fer eftir því hvernig gengur að fá skógarplöntur í gróðrarstöðvum.

Alaskaösp vex upp af græðlingi sumarið 2022.


Aðalfundur 2023

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss var miðvikudaginn 26. apríl í sal Golfklúbbs Selfoss á Svarfhólsvelli.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf.
Stjórn félagsins var endurkjörin. Stjórnina skipa: Örn Óskarsson formaður, Snorri Sigurfinnsson ritari, Hermann Ólafsson gjaldkeri og meðstjórnendurnir Björgvin Örn Eggertsson og Hlíf Böðvarsdóttir.
Úlfur Óskarsson hjá Skógræktinni var með fræðsluerindi um kolefnisbindingu með skógrækt.

Húsasmiðjubekkir í Hellisskógi

Sigríður Runólfsdóttir fulltrúi Húsasmiðjunnar afhendir bekkina formlega í Hellisskógi.

Tvær bekkjasamstæður voru settar upp í Hellisskógi þann 21. apríl síðastliðinn. Bekkina gaf Húsasmiðjan Skógræktarfélaginu. Gönguhópur Ingva Rafns aðstoðaði við að koma bekkjunum á sinn stað í skóginum. Annar bekkurinn var settur við suðurenda Hellisbrúar og hinn við göngustíg með Ölfusá rétt við Hellisgil. Endanlegur frágangur við bekkina verður á næstu vikum. Skógræktarfélag Selfoss þakkar Húsasmiðjunni fyrir þessa veglegu gjöf og gönguhópnum fyrir vinnuframlagið. Með sívaxandi umferð gesta um Hellisskóg er mikill fengur af svona gjöf og þjónustustarfi gönguhópsins. Gönguhópur Ingva Rafns samanstendur af níu körlum á besta aldri sem hafa síðastliðið ár verið iðnir við að lagfæra göngubrýr, bekki, grindverk og skilti í skóginum. 

Borðið við enda Hellisbrúar.
Borðið við Ölfusá.

Aðalfundur 2023

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss verður miðvikudaginn 26. apríl 2023 kl 20:00 í sal Golfklúbbs Selfoss á Svarfhólsvelli.

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Fyrirlestur. Úlfur Óskarsson hjá Skógræktinni. Kolefnisbinding með skógrækt.
    Allir eru velkomnir

Bakgarðspísl Frískra Flóamanna

Bakgarðspísl Frískra Flóamanna fór fram í Hellisskógi á skírdag. Um var að ræða hlaupalegg sem var ein míla og höfðu hlauparar 15 mín til þess að klára hvern legg. Ræst var út í hvern legg á 15. mín fersti. Alls tóku þátt tæplega 30 hlauparar sem hlupu mismunandi vegalengdir, fimm luku heilu maraþoni en þrír fóru rúma 50 km. Veður var mjög gott og hentaði vel til hlaupa. Gaman er að sjá hve fólk nýtir Hellisskóg vel til hverslags útiveru og leikja.

Alþjóðlegur dagur skóga

Í dag 21. mars er alþjóðlegurdagur skóga sem FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna heldur hátíðlegann á hverju ári.
Núna er yfirskriftin „Heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk“ Að vernda skóga, breiða þá út og stuðla að heilbrigði skóganna er líka okkur sjálfum fyrir bestu þegar upp er staðið. Við þurfum heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk.

FAO gaf út myndband af tilefni dagsins. Núna er það til á íslensku.

Áramótin 2022-23

Skógræktarfélag Selfoss óskar áhugafólki um skógrækt gleðilegs nýs árs, með von um gjöfult skógræktarstarf í framtíðinni. Jafnframt þakkar félagið fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.