Category Archives: Uncategorized

Aðalfundur 2023

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss var miðvikudaginn 26. apríl í sal Golfklúbbs Selfoss á Svarfhólsvelli.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf.
Stjórn félagsins var endurkjörin. Stjórnina skipa: Örn Óskarsson formaður, Snorri Sigurfinnsson ritari, Hermann Ólafsson gjaldkeri og meðstjórnendurnir Björgvin Örn Eggertsson og Hlíf Böðvarsdóttir.
Úlfur Óskarsson hjá Skógræktinni var með fræðsluerindi um kolefnisbindingu með skógrækt.

Húsasmiðjubekkir í Hellisskógi

Sigríður Runólfsdóttir fulltrúi Húsasmiðjunnar afhendir bekkina formlega í Hellisskógi.

Tvær bekkjasamstæður voru settar upp í Hellisskógi þann 21. apríl síðastliðinn. Bekkina gaf Húsasmiðjan Skógræktarfélaginu. Gönguhópur Ingva Rafns aðstoðaði við að koma bekkjunum á sinn stað í skóginum. Annar bekkurinn var settur við suðurenda Hellisbrúar og hinn við göngustíg með Ölfusá rétt við Hellisgil. Endanlegur frágangur við bekkina verður á næstu vikum. Skógræktarfélag Selfoss þakkar Húsasmiðjunni fyrir þessa veglegu gjöf og gönguhópnum fyrir vinnuframlagið. Með sívaxandi umferð gesta um Hellisskóg er mikill fengur af svona gjöf og þjónustustarfi gönguhópsins. Gönguhópur Ingva Rafns samanstendur af níu körlum á besta aldri sem hafa síðastliðið ár verið iðnir við að lagfæra göngubrýr, bekki, grindverk og skilti í skóginum. 

Borðið við enda Hellisbrúar.
Borðið við Ölfusá.

Aðalfundur 2023

Aðalfundur Skógræktarfélags Selfoss verður miðvikudaginn 26. apríl 2023 kl 20:00 í sal Golfklúbbs Selfoss á Svarfhólsvelli.

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Fyrirlestur. Úlfur Óskarsson hjá Skógræktinni. Kolefnisbinding með skógrækt.
    Allir eru velkomnir

Bakgarðspísl Frískra Flóamanna

Bakgarðspísl Frískra Flóamanna fór fram í Hellisskógi á skírdag. Um var að ræða hlaupalegg sem var ein míla og höfðu hlauparar 15 mín til þess að klára hvern legg. Ræst var út í hvern legg á 15. mín fersti. Alls tóku þátt tæplega 30 hlauparar sem hlupu mismunandi vegalengdir, fimm luku heilu maraþoni en þrír fóru rúma 50 km. Veður var mjög gott og hentaði vel til hlaupa. Gaman er að sjá hve fólk nýtir Hellisskóg vel til hverslags útiveru og leikja.

Alþjóðlegur dagur skóga

Í dag 21. mars er alþjóðlegurdagur skóga sem FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna heldur hátíðlegann á hverju ári.
Núna er yfirskriftin „Heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk“ Að vernda skóga, breiða þá út og stuðla að heilbrigði skóganna er líka okkur sjálfum fyrir bestu þegar upp er staðið. Við þurfum heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk.

FAO gaf út myndband af tilefni dagsins. Núna er það til á íslensku.

Áramótin 2022-23

Skógræktarfélag Selfoss óskar áhugafólki um skógrækt gleðilegs nýs árs, með von um gjöfult skógræktarstarf í framtíðinni. Jafnframt þakkar félagið fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.

Plöntun sumarið 2022

Gert klárt fyrir græðlingaplöntun 8. maí 2022

Sumarið 2022 var plantað alls 1850 plöntum af 34 tegundum. Þar af voru 1480 græðlingar af alaskaösp.
Aðrar tegundir voru birki, jörvavíðir, sitkagreni, hvítgreni, garðahlynur, broddhlynur, ilmreynir, koparreynir, skrautreynir, kasmírreynir, rúbínreynir, fjallareynir, kínareynir, úlfareynir, alpareynir og lerki (hrymur), auk stakra trjáa og runna í trjásafnið.

Plantað reynitrjám meðfram Simmastíg 7. október 2022.

Félagar í Skógræktarfélagi Selfoss plöntuðu 8 maí. Þá var stungið niður 1300 aspar græðlingum vestan við Hellinn. Aftur var plantað 7. október meðfram Simmastíg, 50 pottaplöntum af 9 mismunandi reynitegundum.

Hópur nemenda frá eyjunum Reunion, Azoreyjum og Kýpur plöntuðu 19. maí 2022.

Hópur nemenda sem voru í heimsókn í FSu plöntuðu 70 pottaplöntum í svokallað “Stjánatún” þann 19. maí. Þetta var liður í því að efla umhverfisvitund nemendanna enda öll komin frá fjarlægum eyjum, með tilheyrandi kolefnisspori.

Plöntun í Hellisskógi 1. júlí 2022.

Í júlíbyrjun mættu 40 krakkar ásamt 15 starfsmönnum frá Árborg og plöntuðu 60 birkiplöntum vestan við Hellinn.
Þetta er orðið árvisst að krakkahópar á sumarnámsskeiðum komi í Hellisskóg til að planta trjám.


Merking gönguleiða í Hellisskógi

Sumarið 2022 var unnið að merkingu gönguleiða í Hellisskógi. Settar voru litamerktar stikur við þrjár gönguleiðir. Bláa leiðin (litli hringur 2,1 km), rauða leiðin (stóri hringur 3,4 km) og appelsínugula leiðin (Hellisbrú 1,5 km). Alls er stígar i Hellisskógi um 8 km að lengd.
Í lok september voru sett upp gönguleiðakort á þremur stöðum. Núna geta gestir valið sér gönguleiðir við hæfi án þess að eiga á hættu að villast í skóginum.

Starfsmenn Árborgar sáu um merkingar gönguleiða og uppsetningu kortum.

Eitt af þremur gönguleiðakortum í Hellisskógi.

Sigling út í Fremri Laugardælaeyju 17. september 2022

Í tilefni 70 ára afmælis Skógræktarfélags Selfoss bauð félagið upp á ferð í Fremri Laugadælaeyju laugardaginn 17. september. Veður var mjög gott til útiveru og siglinga. Bátasveit Björgunarfélags Árborgar sá um að ferja gesti út í eyju og 70 gestir þáðu boðið. Siglt var frá kl. 10 til 12 og voru tveir bátar í stöðugum siglingum. Boðið var uppá veitingar í eyjunni. 

Í Fremri Laugardælaeyju vaxa tvö silfurreynitré sem plantað var um 1890.

Björgunarfélag Árborgar sá um að ferja gesti út í eyju.
Boðið var upp á veitingar í Laugardælaeyju. Gott útsýni til allra átta.
Gömlu silfurreynitrén í Laugardælaeyju eru með elstu trjám sem nú vaxa á Íslandi. Hafa vaxið hægt við þröngan kost og hafa orðið fyrir mörgum áföllum á lífsleiðinni.

Skógræktarfélag Selfoss – 70 ára

Skógræktarfélag Selfoss var stofnað á fundi í Tryggvaskála 16. maí 1952 og er því 70 ára í dag 16. maí 2022. Félagið varð strax deild innan Skógræktarfélags Árnesinga. Í 2. grein félagslaga skógræktarfélagsins segir: “Tilgangur félagsins er að efla trjárækt innan bæjarins og planta skógi á ræktunarsvæðum Selfossbæjar og Skógræktarfélags Árnesinga”. Skógræktarfélag Selfoss hefur unnið óslitið að þessum markmiðum undanfarin 70 ár og plantað í reiti á Selfossi og á Snæfoksstöðum. Fyrstu 18 árin í Rauðholtsgirðinguna á Selfossi (á núverandi íþróttavallarsvæði og Gesthúsalóð). Sú skógrækt var ítrekað eyðilögð í sinueldum og loks tekin undir aðra starfsemi. Síðan var plantað í 15 ár á Snæfoksstöðum. Þar stendur nú myndarlegur furuskógur. Frá árinu 1986 hefur félagið einbeitt sér að uppbyggingu Hellisskógar við Selfoss. Þar hefur tekist vel til og er Hellisskógur frábær minnisvarði um starf félagsins síðustu 36 árin. Þó svo félagið eldist og aðstæður í þjóðfélaginu hafi breyst þá hefur starf Skógræktarfélags Selfoss haldið áfram og mun vonandi eflast enn frekar næstu áratugi. Til hamingju með 70 ára afmælið.